Þegar þú vilt bæta orkuna og orkuuflæðið í svefnherberginu þínu er ýmislegt sem ber að hafa í huga.
Svefnherbergið þarf til dæmis ekki að vera stórt til að þér líði vel í því. Þú átt ekki að vera að vinna á netinu uppi í rúmi eða fara yfir heimilisbókhaldið, þú ættir að velja aðra staði í íbúðinni þinni fyrir slíkt.
Ef þú ert í studioíbúð sem er aðeins eitt herbergi þá skaltu samt finna þér annan stað en rúmið þitt fyrir netið og bókhaldið. Svefnherbergið þitt á aðeins að vera fyrir hvíld og kynlíf, svefnherbergið og þá sérstaklega rúmið þitt, á að vera þér algjör unaðsreitur, þangað sem þú sækir þér endurnæringu og gleði, nýtur þess einnig að kúra þar og láta þér líða vel.
Ef þú ert t.d. kona fædd 1. mars 1984 þá eru bestu áttirnar þínar suðvestur, sem er besta árangursáttin þín, norðvestur er besta heilsuáttin þín, vestur er besta samskiptaáttin þín og svo er það þá norðaustur sem er besta viskuáttin þín.
Staðsetningin á rúminu verður að vera rétt
Staðsetningin á rúminu getur skipt miklu máli. Rúmið á að vera staðsett þannig að þegar þú liggur í rúminu áttu að geta séð dyrnar en rúmið á samt ekki að vera staðsett beint fyrir innan þær. Þú vilt ekki að orkan fari beint inn um dyrnar og að höfðalaginu, ef rúmið er þannig staðsett þarftu að hafa gott náttborð eða kommóðu á milli höfðalags og dyragættarinnar.
Samkvæmt Feng Shui fræðunum þá skiptir líka máli í hvaða átt hvirfillinn þinn snýr þegar þú sefur ef þú vilt virkilega nýta svefntímann þinn vel og njóta góðrar hvíldar. Það hvaða áttir eru þér hagstæðar að þessu leyti fer eftir fæðingardegi þínum og fæðingarári. Hver og einn „á“ sér fjórar sérlega hagstæðar áttir. Ef þú ert t.d. kona fædd 1. mars 1984 þá eru bestu áttirnar þínar suðvestur, sem er besta árangursáttin þín, norðvestur er besta heilsuáttin þín, vestur er besta samskiptaáttin þín og svo er það þá norðaustur sem er besta viskuáttin þín.
Þú átt þá helst að snúa rúminu þínu þannig að hvirfillinn snúi í eina af þessum áttum. Sértu fædd 1.3. 1979 þá eru bestu áttirnar þínar suður, norður, suðaustur og austur. Karlar og konur eiga ekki alltaf sömu eða samsvarandi „bestu áttir“ en það er samt ekki ávísun á að annað ykkar þurfi að sofa í stofunni ef þið viljið deila rúmi, í Feng Shui er nefnilega hægt að finna ráð við svo ansi mörgu. Ef þig langar að fá að vita hvaða áttavitaáttir henta þér best (og maka þínum), þá getur þú sent mér línu á fengshui@fengshui.is en mundu að senda mér nafn, fæðingardag og fæðingarár.
Það getur nefnilega komið sér ansi vel að vita hvaða áttir eru þér hagstæðar. Þegar þú sefur áttu að snúa hvirflinum í eina þeirra, en við dagleg störf getur reynst vel að snúa andlitinu í eina þeirra. Þá getur það farið eftir viðfangsefni líðandi stundar í hvaða átt er best að snúa. Síðan tengist þetta líka markmiðum og markmiðamyndum, já og meira að segja því hvernig þú raðar upp á tölvuskjáinn þinn eða hvernig þú skipuleggur nafnspjaldið þitt .
Rómantíska hornið í svefnherberginu
Suðvestur hornið í svefnherberginu er almennt rómantíska hornið en þar að auki áttu þér annað rómantískt svæði í svefnherberginu og það fer eftir bestu samskiptaáttinni þinni. Á báðum þessum svæðum er mikilvægt að þú hafir aðeins ljúfa og rómantíska hluti og myndir. Trúarlegt tákn, ikonar og englar ættu að vera annars staðar og helst á austurvegg. Myndir af börnunum þínum ættu líka að vera annars staðar, sem og myndir sem börnin þín hafa búið til. Hvers vegna? Jú, svefnherbergið á að vera fyrir kynlíf og svefn, helst ekkert annað. Slepptu því alveg að vera með alla ættina þarna upp á vegg hjá þér, myndir af tengdafólki eða látnum ástvinum. Það hljóta að finnast aðrir góðir staðir.
Engar erfiðar minningar
Það er eitt sem ég vil endilega minnast á og það er að hlutir sem tengjast erfiðum minningum ættu ekki að vera í svefnherberginu. Ég hef komið inn í ansi mörg svefnherbergi á síðustu árum í vinnu minni með Feng Shui. Það er ekki óalgengt að konur sem hafa misst fóstur eða barn hafi myndir eða einhverja muni í svefnherberginu sínu til minningar um þessa erfiðu lífsreynslu.
Þar sem við skynjum ómeðvitað svo margt annað í umhverfi okkar en það sem við horfum beint á, þá er betra að skynja aðeins það sem okkur líður vel með þegar við förum að sofa. Allt það sem við erum að fást við eða erum að skynja í um 30 – 40 mín áður en við sofnum er talið að undirmeðvitundin vinni með á meðan við sofum. Þó svo að við finnum minningarhlutunum aðra góða staði þá erum við ekki á nokkurn hátt að „gleyma“ því sem gerðist. Við erum ekki heldur að svíkja þá sem eru látnir en við erum að leyfa okkur sjálfum að halda áfram. Við þurfum að nota lífsorkuna til að byggja okkur upp, upplifa gleðina og lífshamingjua.
Það er alltaf mikilvægt að taka vel til í svefnherberginu sínu, hafa þar aðeins hluti sem vekja með þér góðar og ljúfar minningar. Því er nauðsynlegt að fjarlægja hluti sem eru ekki að gagnast þér til aukinnar hamingju og gleði í dag. Farðu nú vel í gegnum fataskápinn og náttborðin, hreinsaðu vel til. Í næsta pistli skoðum við ýmislegt fleira varðandi Feng Shui orkuna og orkuflæðið í svefnherberginu.
Nýttu Feng Shui orkunnar sem allra best- www.fengshui.is og fengshui@fengshui.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!