Plötusnúðurinn og tónlistarútgefandinn Pil Marques fékk aðstoð hjá arkitekt við að raða hlutunum sínum betur upp.
Hann elskar styttur og hluti úr bíómyndum og tónlistarmyndböndum og hefur safnað þessu árum saman. Svo var komið að því að hlutirnir voru ekki að njóta sín nógu vel og fékk hann þá aðstoð frá brasílíska arkitektinum Guilherme Torres.
Til að byrja með var íbúðin máluð í fallegum litum. Stofan fékk bjartan bláan lit og eldhúsið bleikan lit. Blái liturinn nýtur sín einstaklega vel og heldur algjörlega utan um alla fínu hlutina sem Pil Marques á.
Grái sófinn kemur ansi vel út með bláan lit í bakgrunn. Svo skemmir þetta litla fallega borð ekki fyrir.
Meðal fárra húsgagna sem voru keypt í þessari breytingu eru hillurnar í stofunni. Þær skapa ákveðinn karakter og flottan stað fyrir bækurnar, taktu eftir hvað það er flott að láta bækurnar liggja í stað þess að standa. Kemur ákaflega vel út. Meðlimir hljómsveitarinnar Kiss fá líka að njóta sín ofan á hillunum.
Hérna sjást félagarnir úr Kiss enn betur en þeir tróna efst á hillunni. Auðvitað á safnarinn eina búktalsbrúðu líka og situr hann sæll í sínum stól í stofunni.
Barborðið er fallegt, gamalt og uppgert. Passar eins og flís við rass í þessu skemmtilega umhverfi. Chanel tunnan er líka algjört augnakonfekt.
Hér sést vel inn í eldhús frá stofunni en það var málað fallega bleikt. Taktu líka eftir glerskápnum hér til vinstri en þar má sjá ótrúlega flottar fígúrur og styttur. Sumar nýjar en aðrar komnar vel til ára sinna.
Eldhúsið minnir á safn frekar en eldhús, en sniðugt er það og hlutunum er fallega uppraðað. Eflaust hægt að gleyma sér þarna tímunum saman við að skoða hlutina.
Gestaherbergið í húsinu er alveg jafn litríkt og hinir hlutar hússins. Veggirnir eru málaðir í aðeins mýkri og léttari tón en frammi í stofu. Gömul kista gegnir hlutverki náttborðs og þarna má sjá dúkkur og leikföng frá miðri síðustu öld príða hillurnar.
Ansi flott plötusafn hjá gaurnum
Appelsínugulur Eames passar fullkomlega við bláa litinn í stofunni, æðislegir saman!
Skemmtileg! Flott! Öðruvísi og spennandi íbúð!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.