Er stofan þín alveg líflaus og leiðinlegt? Svefnherbergið tómlegt? Eða forstofan alveg tóm og allt í rugli?
…þá er kannski málið að draga smá lit inn í umhverfið og gera stemninguna skemmtilegri. Mjög einfalt er að fá sér púða, teppi eða fallegan gólflampa í lit og með því að skella þessu inn í stofu ertu búin að gjörbreyta stemningunni á augabragði.
Við hérna á Fróni erum oft ansi hrædd við liti bæði í fatavali og eins húsgagnavali. Sumir velja sér allt hvítt og svart inn til sín og enn aðrir allt í brúnum tónum. Stundum getur þessi einfaldi stíll hreinlega verið of þungur og þá er um að gera að létta örlítið með litum.
Aðrir eru óhræddir og skella sér á sófa í bláum lit eða jafnvel grænum. Eða velja sér eldhússtóla í sitthvorum litnum bara til að gera skemmtilega stemningu í rýmið. Eins er afar auðvelt að mála einn vegg í lit eða jafnvel eina hurð. Sú breyting er yfirleitt bara til góða og svo er líka svo auðvelt að mála aftur yfir þegar maður fær leið á litnum.
Hillusamstæður geta oft verið líflausar og þreyttar, en með því að skella lit á bakið inn í hillunum þá ertu komin með nýja hillusamstæðu, svo ég tali nú ekki um að setja led ljós inn í sumar hillurnar líka (fær led ljósaborða hjá IKEA) . Þá er hægt að kveikja ljós í hillunum þegar rökkva tekur og skapa algjörlega nýja stemningu í stofunni.
Kíktu á þessar myndir til að fá smá innblástur og gangi þér vel!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.