Eins og svo margar aðrar konur þá dreymir mig um hið fullkomna fataherbergi. Fataherbergi þar sem allt er í röð og reglu og ég sé strax hvaða föt ég á, öll fallega sett upp og fylgihlutunum smekklega raðað upp.
Þessi skápur er algjör bjútí…eða ætti ég að segja þetta herbergi…
En á meðan fataherbergið er enn draumur þá ákvað ég að koma skipulagi á fataskápinn minn og langaði að deila með ykkur nokkrum einföldum ráðum til að hafa skápinn í lagi. Því ekkert er eins pirrandi og óskipulagður fataskápur þar sem maður finnur nákvæmlega ekki neitt en situr svo pirruð á rúmstokknum og hugsar “ohhh ég á bara ekkert til að fara í, ég á eeeeeeengin föt!”
Skápurinn hennar Carrie Bradshaw í Sex and the city…æðislegur skápur og ekki skemmir innihaldið líka!
1. Ráð númer eitt
Hafðu öll herðatréin eins í skápnum þínum. Þá eru allar flíkurnar í sömu hæð og það gefur fallegri yfirsýn þegar þú opnar skápinn. Ef þú er peningalítil og getur ekki skipt þeim öllum út, þá er best að flokka þau saman sem eru eins og láta þau hanga saman. (annars er gott og ódýrt úrval herðatjáa í IKEA)
2. Ráð númer tvö
Raðaðu fötunum þínum eftir litum og tegundum. Þannig áttarðu þig betur á því hvað þú átt til í skápnum og auðveldar leitina á morgnana þegar þú ert að leita þér að dressi dagsins. Eins auðveldar það þegar við förum í verslunarleiðangra, við vitum nákvæmlega hvaða topp okkur vantar eða hvaða lit vantar í fataúrvalið okkar.
Þessi skápur er algjörlega bjútí bjútí. Takið eftir hvernig er raðað í hann.
3. Ráð númer þrjú
Taktu reglulega til í skápnum þínum! Ég mæli með því að fara yfir skápinn allavegna tvisvar á ári og gefa þau föt sem við notum aldrei til góðgerðamála. Tilvalið í byrjun sumars og eins í byrjun veturs. Eins er ágætt að hvíla sumarfötin okkar í efstu hillunni yfir veturinn og draga þau fram aftur næsta sumar og skella vetrarfötunum í hilluna á meðan sólin skín.
Rauði krossinn tekur gjarnan við notuðum fötum og þau eignast nýtt líf
4. Ráð númer fjögur
Snúðu öllum herðatjánnum eins í skápnum hjá þér, helst þannig að þau snúa inn (eins og sést á myndinni). Svo þegar þú notar flíkina á herðatrénu þá snýrð herðatrénu í hina áttina. Þannig sérðu fljótlega hvaða föt þú notar mest og hvaða föt fá að hanga ósnert svo mánuðum skipti og eru tilbúin til að fara í Rauða Krossinn.
Svo er bara að fá sér stóran sparibauk og byrja að safna fyrir fataherberginu 🙂
Ef þig vantar hjálp þá hef ég áralanga reynslu í að skipuleggja og hanna húsnæði. Hafðu samband við mig hjá Mio design og byrjum verkið! 🙂
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.