Íbúð þessi stendur í miðri Amsterdam, Hollandi og er gjörsamlega hrá/grá í gegn
Algjört iðnaðarkonfekt fyrir þá sem elska hrátt umhverfi, gráa hráa veggi, svört húsgögn og gömul í bland. Það sem heillar mig einna mest við þessa íbúð eru kannski myndirnar sem teknar voru af henni en hlutum er komið einstaklega vel fyrir í íbúðinni, stillt upp á skemmtilega listrænan máta.
Húsgögnin eru svo skemmtilega hrá. Ótrúlegt jafnvægi á milli húsgagna því það er nákvæmlega enginn litur í þessari íbúð. Hér er aðeins notaður hvítur, svartur og grár…jú smá brúnum tónum bætt við. En þá er brúni liturinn frekar notaður og eyddur.
Það er algjör spurning hvort eigandinn hafi fundið húsgögnin í þessum lit eða hvort hann hafi einfaldlega málað gömul húsgögn í þeim lit sem hann vildi. En útkoman er skemmtilega myndræn.
Elska þennan lampa í horninu. Ekta kastara lampi frá miðri síðustu öld. Alveg ótrúlega flottur í þessu rými.
Taktu eftir stólunum, þeir koma stólarnir úr öllum áttum, bæði nýjum og nútímalegum og gömlum. Eames nýtur sín vel þarna innan um aðra tréstóla og gamalt vinnuborð sem nú í dag er nýtt sem eldhúsborð.
Skrifstofa heimilisins er ákaflega hrá, en fín er hún þó og snyrtileg með flotta apple tölvu sem passar vel við heildina.
Snilldar uppsettning þó hrá sé. Myndræn og falleg, – kannski ekki mjög heimilisleg íbúð en hún er svakalega myndræn og fallega hönnuð. Hráu efnin og einfaldleikinn fá að ráða og sýna ansi sterkan karakter. Viss saga er sögð eða kannski margar sögur með þessum flottu, gömlu, hráu og einföldu húsgögnum? Algjört listaverk!
Sófinn sýnir að eigandinn á peninga því hann er ættaður frá B&B italia sem er ansi dýrmæt hönnun. Sófaborðið er steypuklumpur á hjólum, hrár en óneitanlega svaðalega flottur. Kertin setja sitt seiðandi svip til að fullkomna útlitið.
Svaðalega flott íbúð í iðnaðarstíl, heildarlúkkið er óneitanlega listrænt og töfrandi á sérstakan hátt.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.