Af og til fæ ég þessa tilfinningu að ég bara verð að breyta til, rífa mig upp með rótum og gera eitthvað nýtt, svona til að hrista upp í sjálfri mér, þannig að ég festist ekki í rútínunni.
En það á líka við um suma hluti, hluti sem ég sé og hluti sem fá mig til að söngla: Ef ég væri ríkur -darírírírí. En ég er ekki milli… ekki enn!
Hinsvegar á ég lottómiða sem ég keypti í siðustu viku þannig að ekki er öll von úti enn. Ég sver að ef ég væri svo lukkuleg að fá lottóvinning þá myndi ég gefa góðan hluta af vinningnum til Barnaspítala Hringsins og Unicef.
En aftur að draumnum góða. Um leið og ég sá þessar myndir þá var ég ekki í vafa, um að þetta fagra hús væri draumaheimili mitt. Ég hefði ekkert á móti því að stökkva um borð í næstu vél til Spánar ef mín biði þetta fallega hús frá sextándu öld.
Húsið hefur verið gert upp og er samblanda af gömlu og nýju. Steinn hússins fær að njóta sín og hreinar línur sem sýna vel, ljós, skugga, eld, stein og vatn eða einfaldlega þögnina.
Það væri ekki lélegt að sitja á pallinum að kvöldlagi, hlusta á góða tónlist, með rauðvínsglas í hendi, ostabakka og ferska ávexti á hliðarborði, jafnvel eftir góðan kvöldverð með enn betra fólki sem fær mig til að brosa.
Þetta fallega draumahús er staðsett á Girona á spáni. Enn betra – húsið er til leigu.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.