Heimilið á að vera griðarstaður. Staður sem veitir skjól frá amstri dagsins. Þar áttu að geta andað léttar og notið gæðastunda með heimilisfólkinu þínu eða bara með sjálfri þér.
Það er að segja ef þú ert ekki að þurrka af, skúra, elda, laga til og ganga frá barnadóti öllum stundum. Það vill þó vera raunin hjá okkur flestum því gjarnan viljum við eiga fallegt heimili sem að endurspeglar örlítið okkur sjálfar. Það er hinn hversdagslegi raunveruleiki. Sjálf er ég ekkert sérstaklega dugleg að vera með tuskuna á lofti – ég gæti gert betur. Auðvitað.
Mér finnst tíminn bara það dýrmætur að mig langar ekki að eyða honum í að laga til öllum stundum.
Þess vegna var ég glöð að rekast á sniðuga lausn í barnaherbergið sem er ekki eingöngu flott heldur einnig umhverfisvæn. Svona verð ég að eignast svo ég geti lagað til í barnaherbergjunum á tveimur mínútum. Krökkunum gæti jafnvel þótt gaman að ganga frá hlutunum sínum.
Tellkiddo pappír leikfangasekkurinn er poki sem þolir ansi mikið. Hann er endurnýtanlegur og skemmtileg viðbót inn í barnaherbergið. Sænski grafíski hönnuðurinn, Maria Sabbah á heiðurinn af þessari sniðugu hugmynd.
Hér er hægt að kaupa pokana í ýmsum gerðum hjá Tellkiddo en þeir eru einnig fáanlegir sem taupokar.
Þið sem viljið komast hjá öllu því umstangi sem fylgir að panta erlendis frá þurfið ekki að örvænta því íslenska netverslunin Petit.is selur einnig nokkrar tegundir af umhverfisvænu leikfangasekkjunum. Þar er hægt að fá svo margt fallegt fyrir smáfólkið.
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!