Sumarið er tíminn eins og Bubbi syngur svo vel og ég er alltaf með hugann við sól og sumaryl þrátt fyrir að jólin og áramótin séu nýliðinn.
Ég rakst á þessa frábæru hugmynd af heimagerðum smágarði. Snilldarlausn fyrir svalirnar, já eða fyrir þá sem eru svo heppnir að eiga verönd. Ég ætla allavegna að gera svona smágarð í vor og glæða lífi á svalirnar mínar. Það verður spennandi að sjá útkomuna.
Það sem þú þarft til að búa til þinn eiginn smágarð:
- Viðarbretti (hægt að fá svoleiðis í næsta stórmarkaði og/eða byggingavöruverslun)
- Garðyrkjupappa ( fæst í Blómaval og Garðheimum)
- Sandpappír
- Heftibyssu og hefti
- Hamar og nagla
- Mold
- Falleg blóm
AÐFERÐ
1. Byrjaðu á því að pússa létt yfir brettið með grófum sandpappír.
2. Skerðu pappann út og hafðu hann tvöfalldan og byrjaðu að hefta. Heftaðu meðfram hliðunum, botninn og bakið og passaðu upp á hornin svo moldin leki ekki þar út. Sjá á meðfylgandi myndum.
3. Byrjaðu að setja mold í brettið og hafðu hana þétta en mundu eftir smá plássi fyrir blómin.
4. Svo er bara að skella blómunum í, byrjaðu á botninum og haltu áfram upp á við. Hafðu mold á milli svo blómin haldist á þeim stað sem þau eru sett á.
5. Lyftu brettinu upp þannig að það standi.
6. Byrjaðu á því að vökva vel efst og minnkaðu vatnsmagnið eftir því sem þú ferð neðar.
7. Leyfðu brettinu að liggja í 2 vikur svo ræturnar á blómunum nái að festa sig áður en þú stillir blómaverkinu þínu upp við næsta vegg.
Vollá…komin með garð út á svalir! Hversu mikil snilld er það?
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.