Í innliti dagsins ferðumst við til Suður Afríku, nánar tiltekið til Cape town en þar er að finna nýtt hús í einföldum og mjög módern stíl.
Náttúran teygir sig inn í híbýlið í gegnum háa og fallega glugga, sem gerir heildina ákaflega hlýlega og sjarmerandi í senn en þessi retró fílíngur sem húsgögnin og aðrir fylgihlutir bjóða uppá er alveg til að fullkomna heildina. Heimilið verður að persónulegum og hlýjum stað, stútfullt af skemmtilegum minningum, litum, formum og klassískri hönnun en á sama tíma mjög ‘hipp & kúl’.
Handsaumaðir púðar í bland við nýja púða. Taktu líka eftir þessum fallegu og tignarlegu leirvösum. Afrískur leir með afrísku mynstri. Hlutirnir njóta sín afar vel í annars látlausri byggingunni en gólfin eru flotuð, veggir og loft hráir og flottir.
Eigendurnir þekkja vel til klassískrar og tímalausrar hönnunar og hafa valið Noguchi sófaborðið sem stofustáss enda passar það mjög vel í þessu flotta rými.
Borðstofuborðið nýtur sín einstaklega vel. Tulip chairs hafa fengið það flotta hlutverk að vera við miðju á alrými hússins. Sinnepsguli liturinn á stólunum gefur heildarstemningunni góðan karakter.
Fallegt afdrep fyrir bókaorma fjölskyldunnar. Hér er sko hægt að detta inn í söguþráð góðrar bókar og gleyma stað og stund. Taktu líka eftir útsýninu – algjörlega dásamlegt!.
Bókasafn fjölskyldunnar er ekki af verri endanum en rúmlega 40fm af húsinu voru nýttir undir bókaherbergi.
Einfaldleikinn ræður ríkjum í svefnherbergjunum, ásamt flottum retró munum og lýsingu af lömpum. Ekki flókið.
Baðherbergin eru opin og björt eins og önnur rými í húsinu. Einfaldi stíllinn er allsráðandi með smá blandi af flottum munum.
Hressileg og öðruvísi stemning í þessu nútímalega húsi, gaman að sjá retró húsgögnin í bland við klassíska hönnun njóta sín svona vel í nútímalegu umhverfi.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.