Danski hönnuðurinn Laura Terp Hansen á yndislega og stelpulega íbúð
Íbúðin er sambland af skandinavískum stíl og indverskum. Hún blandar þessum tveimur stílum saman á ótrúlega skemmtilegan hátt. Bleiki og rauði liturinn eru frekar ráðandi eins og sjá má en fylgihlutirnir í kringum þessa tvo liti koma líka mjög vel út.
Í eldhúsinu er bleikt svanaveggfóður sem kemur meiriháttar vel út í stíl við bleika ísskápinn og litlu sætu fylgihlutina. Stólarnir eru hvítir og hannaðir af Arne Jacobsen og heita Sjöan – heit hönnun sem er orðin algjör klassík. Eldhúsborðið heitir Tulip og er einnig fræg hönnun sem stendur alltaf tímans tönn. Yfir Tulip eldhúsborðinu hangir svo fagurbleik og sæt ljósakróna til að fullkomna stemninguna.
Stofan er samblanda af hvítum/svörtum, rauðum og bleikum litum. Takið eftir púðunum og kertastjakanum, stundum spila fylgihlutirnir stærsta hlutverkið í stofunni og oft þarf ekki mikið af þeim til að skapa skemmtilega heildarstemningu. Falleg og einföld húsgögn á móti spennandi fylgihlutum í sterkum litum.
Yndislega krúttleg og stelpuleg íbúð hjá flottum hönnuði!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.