Fyrir jól og áramót fara fríska margir upp á heimilin sín og sumir jafnvel mála. Barnaherbergið er eitt af mikilvægustu rýmunum á heimilinu enda eiga barnaherbergi að vera þægilegur staður fyrir börnin að hvílast og leika sér.
Barnaherbergið á að vera hvíldarstaður fyrir nóttina og líflegt leikherbergi yfir daginn. Því ekki að leyfa börnunum að vera með í ráðum þegar þau hafa aldur til og breyta herberginu eftir þeirra höfði? Þau eru mjög oft með sínar skoðanir og vita hvað þau vilja enda með frjótt og skemmtilegt hugmyndaflug.
Það getur verið góð samverustund að setjast niður með þeim með blað og liti og spyrja hvernig herbergi þau vilja -innan skynsamlegra marka þó, því hver segir að henda þurfi gömlum húsgögnum og kaupa ný?
Oft er hægt að finna húsgögn í bílskúrnum, geymslum, kompum hjá afa og ömmu eða í Góða hirðinum og endurnýta t.d. tekk og önnur klassísk húsgögn. Þá getur t.d. verið þjóðráð að láta fagmann sjá um að lakka og gera þau fín.
Þegar ég var sextán ára erfði ég hornskáp úr hnotu. Hann var ekki alveg að mínum smekk þá en ég hafði það ekki í mér að láta hann frá mér og var hann settur í pössun (í 24 ár). Honum var síðan skilað til mín á þessu ári en ég var þá að fara að eignast mitt annað barn. Ég lét lakka skápinn og hann er eins og nýr – bara nokkuð fallegur og nýtur sín vel í ungbarnaherberginu.
Athugaðu svo að skápar í barnaherbergjum geta komið að góðum notum undir tölvur eða sjónvörp því það þykir ekki hollt fyrir krakka að hafa slík tæki fyrir augunum í eigin herbergi.
myndir frá 13&3
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.