Gulur litur er einn sá bjartasti og flottasti litur sem til er. Þá er ekki þar með sagt að hinir litirnir séu ekki flottir og fagrir en sá guli hefur þann eiginleika að lyfta bæði sál og anda, kæta og bæta.
Grái liturinn fer einstaklega vel með þeim gula svo það er einfalt fyrir okkur íslendingana sem veljum oftast hvítt eða svart heima hjá okkur að bæta inn einum sætum lit. Þú þarft ekki að mála heilan vegg með litnum, aðeins bæta honum inn í heildina með því að setja inn púða á rúmið, lítið og sætt náttljós, kertastjaka, loftljós eða skella fallegum rúmfötum á rúmið í gulum tónum.
Guli liturinn hefur jákvæð áhrif á sálarlífið, hann gefur okkur jákvæðni og gleði. Við vitum alveg að litir gleðja okkur og það þunga og dökka leyfir okkur að dvelja í skúmaskotunum okkar og hvílast. Af hverju ekki að prófa að setja smá lit inn í svefnherbergið og athuga hvort við vöknum ekki með sól í hjarta (þrátt fyrir grenjandi ringninguna úti).
Kíkið á þessar fallegu myndir til að fá smá innblástur, ég mæli algjörlega með því að krydda svefnherbergið með örlitlum sólargeisla!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.