Þessi íbúð er ein af mínum uppáhalds íbúðum í heiminum. Fegurðin er ólýsanleg!
Ég hef nú áður skrifað um þessa íbúð og hönnun þeirra Patrick og Dorothée en ég verð hreinlega að skrifa aftur um þessa glæsieign þeirra. Enda ekki hægt að fá leið á þessari íbúð. Hvert smáatriði, litasamsetningarnar og sjá samspil gamla tímans og nútímans hreinlega dansa listdans fyrir framan mann.
Hjónin Patrick Gilles og Dorothée Boisser eiga og reka arkitekta og hönnunarfyrirtækið Gilles & Boissier og eru þekkt fyrir fallega hönnun á heimssvísu. Íbúðin þeirra í miðborg Parísar er rúmir 300 fermetrar á stærð og hreinlega ein sú allra glæsilegasta sem sést hefur.
Rósettur í loftum og á veggjum fá að njóta sín með extra hárri lofthæð. Nútímalegur stíll kemur sterkur inn með gólfefnum, innréttingum, listaverkum og húsgögnum en samt fær húsið að njóta og sýna sínar bestu hliðar frá gamla tímanum. Þegar þau hafa blandað því nýja við hið gamla er útkoman ævintýraleg. Gluggarnir í íbúðinni eru stórir og háir með þessu sérstaka franska útliti sem gefur óneitanlega mikinn sjarma.
Litavalið í stofunni er grá/brún litapalletta og fá litirnir að njóta sín út um alla íbúð, einnig í eldhúsi og baðherbergi. Litavalið gerir íbúðina hlýlega og smarta.
Baðherbergið er með litlum sætum svölum. Í kringum baðkarið og vaskinn er marmari sem nýtur sín einkar vel á þessu stílhreina baðherbergi. Það sem er óvenjulegt við það eru vissulega svalirnar en sjáið hvað þær skapa flotta stemningu, algjör rómantík og smartheit!
Íbúðin er algjört augnakonfekt, njótið myndanna!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.