Nú þegar flestir skólar eru komnir í páskafrí er fátt betra en að koma börnunum í skemmtileg verkefni…
Skreytt egg eru eitt það allra páskalegasta sem við getum gert til að koma heimilinu í páskastuð. Tala nú ekki um ef þið farið út og náið í nokkrar greinar líka, stingið þeim í vasa með vatni og hafið nálægt eggjunum. Þá ertu komin með hið fullkomna páskaskraut.
Börnin hafa mjög frjótt ímyndunarafl flest hver og gaman að sjá hvað þeim dettur í hug að gera þegar það er málning og litir nálægt þeim. Svo er þetta skraut líka tilvalið fyrir okkur fullorðna fólkið, draga barnið fram í okkur og föndra smá.
En svona ferðu að þessu
Það sem þú notar til að skreyta egg er:
- Egg
- Málning, tússlitir eða naglalakk
- Tannstönglar
- Skál með vatni (best að hafa það plastskál sem má henda á eftir..til dæmis ísbox)
- Grind til að þurrka eggin. Það er líka hægt að gera grind úr títuprjónum og korki.
Og fyrir þá sem vilja aðeins meira skraut en málningu er hægt að nota sand, kaffikork, salt, heklaðar dúllur eða jafnvel klippt út skraut sem er límt kringum eggið. Nú er bara mál að vera sem frumlegust og skemmta sér vel á meðan fjölskyldan dúllar við að skreyta eggin.
Á þessu myndskeiði sést vel hvernig hægt er að blása eggið úr skurninum. (Neglurnar hennar eru kannski ekki með besta móti en hún kann að blása úr eggjum svo við nýtum okkur það…)
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=NJ5ETjQdxik[/youtube]
Hérna sýnir hún okkur hvernig hægt er að gera marmaraútlit á egg með naglalökkum og tannstönglum (Þetta er frábær hugmynd, einföld og meiriháttar flott)
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=VHZgXuUmO9s[/youtube]
Endilega kíkið líka á myndasafnið til að fá enn fleiri hugmyndir. Gangi ykkur vel og gleðilega páska!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.