Það eru margir kostir sem fylgja því að nota náttúruleg hreinsiefni fram yfir þau sem við kaupum í plastbrúsum úti í búð.
Í fyrsta lagi er það betra fyrir umhverfið og að auki er mikill sparnaður í því þar sem hreinsiefnin kosta oft mikið og fara ekki endilega vel með öll húsgögnin okkar eða hlutina.
Hér eru nokkrar góðar leiðir til að nota sítrónu á heimilinu – prófaðu endilega”
1. Fáðu glansinn aftur á krómið
Þetta er eins einfalt og það gerist. Þú bara skerð sítrónu í tvennt, rennir henni yfir krómið, lætur bíða í smá stund og nuddar svo af með þurrum klút eða tusku. Blíng! Uppþvottavélin, kraninn, eða hvaða króm hlutur sem er lítur út fyrir að hafa verið keyptur í gær.
2. Fúgurnar fúlar?
Fúgur á milli flísa geta orðið gráar og látið á sjá. Jafnvel geta myndast einskonar blettir og önnur dularfull óhreinindi. Skerðu sítrónu í fjóra parta og nuddaðu á milli flísanna, láttu bíða í svolitla stund og þvoðu svo af með vatni.
3. Hakkarinn í vaskinum
Ertu með svona hakkara í niðurfallinu í vaskinum hjá þér sem tætir upp lífrænan úrgang áður en hann fær að fara sína leið? Stundum myndast vond lykt í niðurfallinu en þú getur tætt upp eina sítrónu og öll lykt hverfur samstundis! Sítrónur geta oft losað um vonda lykt.
4. Hreinsaðu örbylgjuofninn
Til að eyða vondri lykt úr örbylgjuofnum er gott að fylla litla skál með vatni, setja nokkrar sítrónusneiðar í hana og hita í 45 sek. Láttu bíða í smá stund og þurrkaðu svo innan úr ofninum.
5. Kattafæla
Viltu halda Brandi frá ákveðnum stöðum í íbúðinni? Til dæmis af eldhúsborðinu eða ákveðnum gluggakistum? Blandaðu sítrónusafa og vatni 50/50 og úðaðu á borðið. Kettir þola ekki lyktina af sítrónu svo hann mun halda sig víðsfjarri borðinu eftir þetta. Smátt og smátt verður hann svo skilyrtur og dettur að lokum ekki í hug að hoppa upp.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.