Það er ekki óalgengt að mælt sé með að húsmæður og feður landsins baki sitt eigið brauð.
Ástæðurnar eru margvíslegar, ilmurinn í eldhúsinu verður unaðslegur, með því að baka brauðið sjálf er hægt að bæta við kornum, minnka sykurinn og jafnvel bæta við grænmeti í brauðið til að gera það hollara. Þar fyrir utan er einfaldlega gaman að baka brauð.
Ég fæ oft brauðandann yfir mig og tek skorpur í að verma ofninn og baka brauð með matnum, morgunhleifa og jafnvel snúða og annað sætabrauð, en eins og mér þykir gaman að baka þá þykir mér stundum pirrandi hvað ég þarf að týna mikið af hráefni út úr eldhússkápunum.
Heilhveiti, hveiti, rúgur, sykur, sesamfræ, sólblómafræ, ger, birki, olíu, egg, kanill, rúsínur, einhvernvegin finnst mér ég gera lítið annað en að opna og loka skápum.
Fyrir nokkrum árum síðan datt mér í hug að taka til í þrjú til fjögur brauð í einu. Ég vikta saman þurrefnið (nema gerið) og geymdi blöndurnar í pokum. Þegar kemur svo að því að henda í eitt brauð, þá er það eina sem ég þarf að sækja er heitt vatn, eða mjólk, egg og ger, svo er allt hitt tilbúið ofan í skúffu með einu handtaki. Ég er líka duglegri að henda í brauðið grænmeti eins og gulrótum þegar fyrirhöfnin er svona lítil og með því næ ég að baka hollari brauð.
Næst þegar þú færð brauðandann yfir þig, ekki finna til brauð í eina uppskrift, hugsaðu fram í tímann og skelltu nokkrum skömmtum í poka.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.