Hvernig svafstu í nótt?
Hvernig hefur þér liðið í svefnherberginu þínu síðustu daga, vikur og mánuði?
Hvernig nýtur þú nætursvefnsins?
Hvernig nýtur þú þess annars sem gerist í svefnherberginu?
Svefnherbergið þitt á að vera þinn unaðsreitur, svefnherbergið þitt á að vera fyrir svefn og kynlíf – það er sú orka sem á að ríkja þar. Hefur þú áhuga á að hækka orkustigið í hjónaherberginu?
Hversu mikilvægt er það þér?
Það er ýmislegt til ráða
Ef þú hefur átt erfitt með að njóta hvíldar í svefnherberginu að undanförnu þá skaltu athuga hvað það getur verið sem er að trufla. Þegar þú verður örþreytt yfir daginn og leggur þig, sofnar í meira en 20 mín., þá getur það verið að rugla svefnþörfinni þinni að næturlagi. Þá þarf að koma skikk á svefnmynstrið því að með um 20 mín. svefni að deginum nærðu mjög líklega niður í djúpsvefn sem dregur þá úr svefnþörfinni um kvöldið (við skulum skoða það síðar í öðrum pistli).
Það getur líka verið ýmislegt í sjálfu svefnherberginu þínu sem er að trufla næturhvíldina. Hefur þú einhvern tíma nýtt þér austurlensku fræðin Feng Shui til að auka jákvætt orkuflæði í kringum þig á heimilinu. Samkvæmt Feng Shui skiptir orkuflæðið í „hjónaherberginu“ gífurlega miklu máli fyrir almenna velsæld og hamingju parsins sem þar dvelur – og býr í viðkomandi húsnæði. Rúmið þarf að vera „rétt“ staðsett miðað við „bestu áttirnar“ þeirra sem þar sofa og svo er eitt og annað sem er æskilegt að hafa í svefnherberginu og svo annað sem á ekki heima í svefnherberginu.
Ertu með spegil í svefnherberginu? Það er að vísu í góðu lagi svo framarlega sem þú greinir þig ekki í speglinum þar sem þú ert í rúminu.
Hvað leynist í náttborðinu þínu?
Er þar allt í óreiðu og jafnvel eitthvað sem ætti að hafa endað á allt öðrum stað t.d. í ruslafötunni?
Hvað með fataskápana?
Er þar allt í röð og reglu og aðeins fatnaður sem þú ert ánægð með og elskar að klæðast eða leynast þar föt sem þú getur loksins notað aftur þegar þú verður búin að losa þig við nokkra sentimetra á hinum og þessum stöðum? Getur verið að fataskápurinn sé svo troðinn að þú sért að auki með snaga á veggnum á bak við hurðina og að þar safnist saman alls konar fatnaður.
Hvað með laus herðatré í fataskápnum?
Er pláss fyrir slík? Gleymdist að búa um rúmið í morgun – eða ertu alls ekkert að hafa fyrir því að búa um og setja fallega púða á rúmið? Kannski finnst þér algjör óþarfi að vera að slíku dúlleríi – en ef svo er, þá skaltu hugsa til þess hvernig er að koma inn á glæsilegt hótelherbergi þar sem allt er snyrtilegt og glæsilegt rúmteppi og púðar í stíl gleðja augað. Hvernig tilfinning er það?
Hvað ertu með á veggjunum í svefnherberginu?
Veggskreytingar skipta miklu máli því undirmeðvitund þín meðtekur og vinnur með myndefnið og mótívin án þess að þú sért að gera þér mikla grein fyrir því. Allt þetta hefur áhrif á þig og líðan þína.
Leynast gamlar minningar frá liðnum samböndum í hjónaherberginu þínu í dag. Ef svo er, til hvers er það? Er það ekki óþarfi? Svona hlutir geta líka haft áhrif á orkuflæðið í herberginu og á andlega líðan þína.
Taktu nú til hendinni, farðu með gagnrýnandi augum í gegnum svefnherbergið og skoðaðu hvað betur má fara. Fjarlægðu hluti sem þú finnur að eiga ekki heima þar lengur. Loftaðu vel út, viðraðu sængurfatnaðinn, settu hreint á rúmið og búðu svo um. Þvoðu gluggana. Fjarlægðu myndir af börnunum – þær eiga að vera annars staðar. Það sama á við um trúartákn af ýmsum toga.
Ef þú vilt „meira fjör“ í svefnherbergið þá velur þú vandlega það sem þar á að vera. Byrjaðu á þessu – og svo er hægt að halda áfram síðar. Orkuflæðið skiptir miklu máli.
Með bestu kveðju
Jóna Björg Sætran, M.Ed., ACC markþjálfi og Feng Shui ráðgjafi
jona@namstaekni.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!