Tvær senur
Leikari: Persóna í yfirvigt.
Sena 1
Mig langar svo að grenna mig. Það gengur ekki lengur að burðast með þessi 20 kg sem eru aukalega á mér. Ég vil geta verslað mér föt þegar ég fer í búðir. Ég vil vera ánægð með mig þegar ég lít í spegil. Ég vil upplifa það að ég sé aðlaðandi. Ég vil geta spókað mig í sundi án þess að skammast mín, ég vil geta farið í Yoga og gert æfingarnar, ég vil geta farið í flugvél og passað í sætin.
Sena 2
Ég er ánægð með mig eins og ég er, þrátt fyrir að ég er með 20kg sem eiga enganvegin heima á þessum líkama. Mér finnst ég vera fín í nýja kjólnum mínum þó hann sé í stærð 22. Það þurfa ekkert allir að vera steyptir í sama mótið, sumir eru mjóir og aðrir feitir og þeir sem eru feitir eru ekki verra fólk en annað. Ég get ekki séð hvernig lífsgæðin mínu eru eitthvað slakari þó ég sé feit.
Ég hef tekið þátt í báðum þessum leikritum. Þegar ég burðaðist með 20 kg sem áttu ekki heima á mér sveiflaðist ég á milli senu 1 og senu 2, ég sveiflaðist líka þarna á milli þegar ég var með 46 kíló á mér sem áttu ekki að vera þar, ánægð með mig einn daginn og óánægð með mig hinn.
Skilaboðin sem ég fékk frá samfélaginu voru einnig í takt við senurnar tvær og var það ekki á það bætandi að ná tökum á hugsununum mínum hvað varðar holdafarið mitt.
Senu 1 var svarað svona:
Þú ert aðlaðandi þrátt fyrir að vera með 20kg, þú ert svo sæt og fín. Þú ert ekkert feit. Það er allt í lagi að vera með aukakíló, við þurfum ekki að vera öll eins. Afhverju lætur þú tískuna ráða því hvort þú sért ánægð með þig eða ekki? Það er bara hægt að gera stærri föt.
Sviðsmynd 2 var svarað svona:
Ertu ekki að grínast ? Veistu hvað þú ert að gera líkama þínum með því að hafa öll þessi aukakíló? Þú nær lengra í lífinu ef þú ert mjó, mjótt fólk er bara svo miklu fallegra. Þú ert bara í afneitun.
Já það var frekar flókið að finna sig í þessum mixed skilaboðum.
Feit, mjó, feit, mjó, feit, mjó….
Ég heyri þessi orð oft á dag. Ég segi þau oft á dag.
Manneskja sem er að vinna í að losna við aukakílóin er oft dæmd fyrir að láta undan samfélagslegum þrýstingi um að líta út með ákveðnum hætti.
Manneskja sem er með fullt af aukakílóum á sér er dæmd fyrir að vera löt og aumingi ef hún er ekki að vinna í að losa sig við kílóin.
Við erum dæmd á hverjum degi eftir útliti okkar.
Einu hef ég samt komist að og er það að samfélagið setur yfirleitt ekki út á að fólk hreyfi sig. Þar er ekki þessi ýkta umræða í gangi eins og er með mataræði og holdafar, það þykir töff að stunda reglubundna hreyfingu og upplifi ég það oft að fólk beri ákveðna virðingu fyrir þeim sem ná að vera í reglubundinni hreyfingu og ef maður hreyfir sig þá einhvernvegin skiptir ekki máli hvernig maður lítur út.
Er þá lausnin til að fá frið frá dómhörkunni þarna úti að slá til og fara út í göngutúra, byrja í ræktinni og í leiðinni komast að því hvað gerist oft í kollinum á manni þegar maður fer að hreyfa sig ?
Eða er það kannski ein önnur röng nálgun á “vandamálinu” þar sem hægt er að túlka hana þannig að “enn og aftur sé maður að fylgja hjörðinni”. Sumu fólki finnst bara einfaldlega hundleiðinlegt að hreyfa sig og afhverju ættu þau þá að leggja það á sig ?
Hjá mér eykur hreyfing vellíðan, ég hvílist betur og er orkumeiri sem gerir það að verkum að lífsgæðin mín aukast. En fyrir mér snúast holdafarshreyfingapælingarnarmínar einmitt um þetta orð.
Að lifa lífinu þannig að lífsgæðin mín aukist.
Kannski væri ágætis nálgun á holdafarsmálum hjá einstaklingum sama hvort þeir eru undir kjörþyngd, í kjörþyngd eða yfir kjörþynd að stefna alltaf að því markmiði sem eykur lífsgæðin þeirra. Því það hlýtur að vera það sem skiptir mestu máli?
….og auðvitað að vera heilbrigð sál í hraustum líkama.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.