Um daginn fór ég á fyrirlestur um streitulaust líf þar sem ég fræddist um hvað getur valdið streitu í lífinu og hvernig eigi að bregðast við henni.
Ég hlustaði á hvernig við getum haft áhrif á hvernig við upplifum hluti og túlkum þá og með viðhorfi okkar getum við haft áhrif á tilfinningarnar og þar af leiðandi stjórnað hvernig okkur líður.
Eftir fyrirlesturinn settist ég niður og spjallaði við félagana, uppfull af visku um hvernig eigi að minnka streitu, ánægð að hafa skellt mér á fyrirlesturinn og tilbúin í að taka á móti deginum.
Þegar ég stóð upp og var að fara tók ég eftir því að ég hafði týnt bíllyklunum mínum!!!!
Í smá stund snérist ég í hringi, hljóp inn í sal, spenntist öll upp, hjartað fór að slá örar og ég fór að ofhugsa daginn, þegar ég áttaði mig á því að ég var að upplifa svakaleg stresseinkenni.
Ég staldraði við, hugsaði um hvað mér var kennt á fyrirlestrinum og fann að ég var enganvegin að ná tökum á hugsununum mínum. Ráfandi um salinn, enganveginn hæf um að muna í hvaða röð ég sat og í hvaða sæti.
Ég gekk út úr salnum og sagði við sjálfa mig: “Þú finnur ekki lyklana á meðan þú ert svona stressuð”. Settist aftur niður hjá félögunum, spjallaði í smá stund og þegar ég var búin að róa mig niður þá stóð ég upp og fór inn í salinn að leita.
Í staðinn fyrir að rjúka af stað niður tröppurnar þá lokaði ég augunum og rifjaði upp hvar ég hafði setið. Ég sá mig ganga niður tröppurnar og ganga inn eftir sætunum og setjast niður. Ég elti hugsanirnar og notaði sjónminnið hvert ég ætti að fara.
Vitið þið hvað gerðist ?
Ég fór í rétta röð og á réttan stað og það fyrsta sem ég sá þegar ég almennilega opnaði augun voru lyklarnir.
Það er ekki oft sem maður fer á fyrirlestur, lærir eitthvað og lendir svo í aðstöðu þar sem maður þarf að nýta það sem manni var kennt einungis 10 mínútum seinna!
Svei mér þá ef ég komst ekki bara að því að maður hugsar kolvitlaust þegar maður er í stresskasti!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.