Það kemur þér örugglega á óvart hversu mikinn sykur þú borðar án þess að gera þér grein fyrir því.
Í viku tvö í fjögurra vikna sykurplaninu er ráðlagt að þú komir þér upp sykurlausu eldhúsi.
Ef til vill ertu enþá að finna vörur í eldhúsinu sem eru með miklum sykri, en það er allt í lagi þú bara losar þig við þær, eða geymir vörurnar í sérstakri skúffu ef þú vilt ekki henda mat.
En hvernig kemur maður upp sykurlausu eldhúsi ?
Ef þú ert vön að borða morgunmat sem inniheldur mikinn sykur skiptu honum út fyrir morgunmat sem er gerður úr trefjaríku morgunkorni með litlum eða næstum engum viðbættum sykri. Þú getur gert morgunmatinn sætari með því að nota t.d. ber, banana eða rúsínur.
Í staðinn fyrir að fá þér kex og sætabrauð á milli mála fáðu þér frekar hnetur, hrátt grænmeti og hummus. Í staðinn fyrir að fá þér jógúrt með viðbættum sykri, fáðu þér hreint jógúrt eða gríska jógúrt og notaðu ávexti til að sæta það, eða jafnvel sultu sem er með engum viðbættum sykri.
Hluti af því að losa sig við sykurinn er að minnka sætuþörfina en það getur þú til dæmis gert með því að fá þér orkumeiri fæðu í kaffitímanum en þú ert vön og að setja til dæmis hreint hnetusmjör á heilhveitikex, að sjálfsögðu án viðbætts sykurs.
Ef þú sækist eftir að missa nokkur kíló í leiðinni þá er gott að gera sér grein fyrir hvað þú ert að drekka, en í staðinn fyrir að drekka innantómar hitaeiningar þá er ágætis regla að tileinka sér að drekka t.d. vatn og setja meðal annars frosin jarðarber út í, hindber, sítrónu eða lime.
Reyndar er hægt að leika sér endalaust með drykki sem eru hollir en persónulega gleymi ég alltof oft að drekka og enda með að fá mér að borða í staðinn til að svala þorstanum mínum!
Hljóma þessar ráðleggingar kannski eins og biluð plata ? Ertu búin að prófa þetta hundrað sinnum og alltaf tekst þér að fara í sama farið aftur ?
Ég segi nú bara “og hvað með það!?” Það þýðir ekkert að gefast upp!
Ef þetta er eitthvað sem þú vilt hafa sem lífstíl og þú veist að þér mun líða miklu betur að haga matarræðinu þínu með því að minnka sykurinn, þá verður þú bara að gera þetta í hundraðasta og annað sinn! Hver veit nema þetta komi núna.
Hér er listi af vörum sem þú gætir haft í töskunni þinni til að enda ekki í sjoppunni og kaupa þér súkkulaði þegar sykurþörfin kemur upp.
- Rískökur Gætir meira segja sett hnetusmjör ofan á þær. NEI EKKI PETER PAN HNETUSMJÖR! Það eru til 99% hrein hnetusmjör sem eru holl og næringarík.
- Hnetur.
- Rófu-, gulrótar-, gúrku- eða blómkálsbita. Sniðugt að setja 10% sýrðan rjóma í dollu og bragðbæta með kryddi og taka með.
- Heimabakað brauð með osti. Hafðu brauðið gróft með fræjum og bættu út í það döðlur til að sæta það.
- Hreint jógúrt. Gætir sett sykurlausa sultu út í til að fá mismunandi bragð.
- Rúsínur eða aðra þurrkaða ávexti.
- Ferska ávexti skorna í bita.
- Ávaxtasmoothie í ferðaglasi
Galdurinn er að vera undirbúin OG tilbúin þegar sætuþörfin kemur yfir þig. Vertu alltaf með eitthvað í töskunni til að narta í til að halda blóðsykrinum í jafnvægi en mundu bara að velja matvæli sem innihalda góðar hitaeiningar og eru með næringaefnum.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.