Ef þú ert búin að vera fara eftir viku 1 og viku 2 í verkefninu að forðast eða hætta að borða sykur.
…þá fannst þér væntanlega vika 1 erfiðust þar sem þú þurftir oft að minna þig á að þú værir að hætta að borða sykur.
Ef til vill vaknaðir þú á fjórða morgni og varst búin að gleyma að þú ætlaðir ekki að fá þér sykraðan morgunmat. Eftir hádegi fannst þér erfitt að fá þér ekki súkkulaði með kaffibollanum og þegar þú bauðst fólki í mat á föstudagskvöldinu þá fauk “ís í eftirrétt” planið út um gluggann.
Já… Sennilega er það erfiðasta við að hætta að borða sykur að brjóta vanann. Eða að þér finnst sykraðar vörur svo góðar að þær ÖSKRA á þig með nokkurra tíma millibili.
Í viku þrjú er komið að því að tileinka sér algjörlega sykurlausa daga. Þú ert búin að finna út hvar sykurinn er, væntanlega (vonandi) komin með matvörur inn í eldhúsið þitt sem koma í staðinn fyrir sætindin og búin að troða veskið þitt út af hnetum og þurrkuðum ávöxtum.
En hvernig er hægt að ganga í burtu frá þessari svakalegu löngum sem kemur upp ?
Jú það er bókstaflega hægt að ganga sig í burtu frá lönguninni með því að fara í göngutúra. Þú getur líka prófað að fá þér vatnsglas, farið í bað (fæstir borða í baði), opnað spennandi bók, prjónað (það er erfitt að borða og prjóna í einu) eða bara almennt forðast aðstæður sem lauma hendinni þinni inn í ísskápinn og upp í kjaftinn á þér.
Það er líka til ágæt leið til að átta sig á því hvort þú ert að upplifa óslökkvandi löngun í eitthvað eða þú ert svöng með því að spyrja sig (jafnvel upphátt):
Er ég svöng ? Er ég þyrst eða langar mig í eitthvað af því bara ?.
Við ruglum nefnilega oft saman svengd við óslökkvandi löngun og belgjum okkur út af mat án þess að þurfa í raun á honum að halda.
Taflan hér að neðan sýnir svengdina okkar á einfaldan hátt, en með því að gera sér grein fyrir því hvernig þér líður þá gætir þú gripið fyrr inn í og komið í veg fyrir óslökkvandi löngun.
Góð regla er að borða þegar þú ert á stigi 3 eða 4 en aldrei komast á stig 1 eða 2. Þegar þú ert á stigi 3 eða 4 nærðu að taka skynsamar ákvarðanir í matavali og borðar yfirleitt réttan matarskammt en þegar þú ert á stigi 1 eða 2 þá er sykurfjandinn laus og stórhættulegt að fara í búðina, afmælisveisluna eða matarboðið. Þú veist að nóg er nóg þegar þú ert komin á stig 6 en ef þú ferð mikið yfir það þá þá ertu að borða yfir þig.
Hungur þrep | Tilfinningar og Einkenni |
1 | Þú ert að deyja úr hungri, svimar og ert slöpp |
2 | Mjög svöng, pirruð, með litla orku eða mikið garnagaul |
3 | Frekar svöng, smá garnagaul |
4 | Farin að finna fyrir svengd |
5 | Mett, hvorki svöng né södd |
6 | Þægilega södd og mett |
7 | Líður smá illa |
8 | Þú ert að SPRINGA |
9 | Líður mjög illa, illt í maganum |
10 | Þú ert svo södd að þér líður eins og þú sért veik |
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.