Ert þú ein af þeim sem finnst sykur sjúklega góður ? Því meira sem þú borðar af honum því meira langar þig í hann ? Sama hvað þú reynir að forðast hann þá tekst honum samt að læðast inn fyrir þínar varir daglega ?
Hvað er eiginlega hægt að gera ?
Margir vilja meina að sykur sé óhollur og eigi hreinlega að forðast eins og heitan eldinn. Hann geti valdið sykursýki 2, hjartasjúkdómum, mígreni, geðlægð og fleira og fleira. Væntanlega hefur magnið margt að segja hvað varðar aukaverkanir á sykri, en ef þú ert eins og ég, þá getur verið snúið að stjórna sykurmagninu.
Lítill sykur hér og þar verður allt í einu að fjalli og fyrr en varir er ég farin að gleyma mér og borða alveg fullt af honum!
Á næstu dögum mun ég birta fjögurra vikna plan sem þú getur farið eftir til að hætta sykurneyslu en hér að neðan er verkefni fyrstu vikunnar. Næstu vikur hjá mér verða einmitt tileinkaðar því að hætta þessari blessuðu óhollustu sem mér tekst alltaf að ná tökum á mér.
Vika 1: Gerðu þér grein fyrir hvar sykurinn er
Opnaðu nú ísskápinn og búrskápinn og hentu öllu sem er með viðbættum sykri. Margar matvörur eru augljóslega með sykri eins og ís, kökur, nammi og fleira, en sumar eru með sykri án þess að þú gerir þér grein fyrir því.
Hér er listi yfir heiti á sykri til að hjálpa þér að finna hann þegar þú setur upp spæjaragleraugun og tekur upp stækkunarglerið
Agave nectar | Corn syrup solids Crystalized fructose Date sugar Dextran Dextrose Diatase Diastatic malt Evaporated cane juice Fructose Fruit juice Fruit juice concentrate Glucose Glucose solids Golden sugar Golden syrup Grape sugar | Grape juice concentrate |
Mundu samt að þú þarft ekki að henda öllu sem er sætt. Sykur getur verið náttúrulegur til dæmis sá sem kemur úr ávöxtum og úr þeim færðu vítamín, steinefni og trefjar sem er mikilvægt að borða.
En passaðu þig á mjólkurvörum sem innihalda oft mikinn sykur ásamt söfum og djúsum en oft er viðbættur sykur í mörgum drykkjarvörum sem við neytum.
Góð regla er að ef sykurinn er í fimmta sæti eða aftar á innihaldslýsingunni þá er hlutfallslega lítið af sykri í vörunni og hún ætti að vera í lagi.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.