Sumartíminn er svo sannarlega frábær til þess að æfa úti á meðan vetrartíminn er kaldur og skammdegið getur líka dregið úr okkur.
Stundum horfi ég kappklædda hlaupara og þá hlakka ég til sumarins að hlaupa á hlýrabol og fá hita í kroppinn en skammdegið hefur sín áhrif og margir finna fyrir þunglyndi á þessum tíma en vittu til! Það er hægt að hrista þetta af sér og komast í gegnum veturinn með bros á vör. Hafðu það markmið að vera heilbrigð og hamingjusöm/samur þrátt fyrir veðrið úti. Við getum svo sannarlega haft áhrif á hugarástand okkar.
Lestu þessi leyndarmál sem gefa okkur orku yfir veturinn. Við þurfum stundum að láta minna okkur á hvað veturinn er æðislegur:
1. Forðastu kvef og pestir
Reyndu allt sem þú getur til að forðast að verða veik. Kvef og flensa er mun algengara yfir veturinn en þú getur passað þig betur. Þvoðu hendurnar með sápuvatni og reyndu að forðast sýkla frá öðrum. Þegar við hlaupum út sveitt eftir æfingu þá pössum við líka að klæða okkur vel.
2. Hvíldu þig og drekktu vatn
Fáðu næga hvíld og drekktu nóg af vatni. Borðaðu næringaríka fæðu og það gæti verið að þú þyrftir meira vítamin yfir veturinn. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda heilbrigða lifnaðarhætti veikjast síður.
3. Hreyfðu þig og haltu plani
Hreyfðu þig reglulega og haltu góðri æfingaáætlun. Hreyfing er eitt albesta meðalið við þunglyndi og við finnum hvað við léttum lundina við æfingar. Ónæmiskerfið vinnur á skilvirkan hátt og þú nærð að halda eðlilegri líkamsstarfsemi. Fyrir utan það að þú hristir þorrablót og árshátíðir mun léttar af þér.
4. Farðu út
Útiveran er spennandi yfir vetrartímann ef þú ert vel búinn. Finndu hvað súrefnið gerir þér gott. Tala nú ekki um ef þú kemst á skíði!
5. Verði ljós!
Kveiktu á kertum og finndu hvað birtan og ljósið gefa þér orku. Birtan hefur mikil áhrif á okkur gegn skammdegisþunglyndi. Um leið og þú vaknar skaltu hafa bjart hjá þér. Sumir eiga vekjaraklukku sem gefur frá sér birtu og hjálpar melatonin hormóninu okkar.
6. Heitar súpur
Vetrarmaturinn eru heitar og sterkar súpur sem gefa þér orku. Njóttu þess að prófa nýjar og heilsusamlegar uppskriftir.
7. Út að leika!
Hvað er svo skemmtilegra en að fara út í stórhríð og leika sér í snjónum. Krakkarnir okkar elska það og við líka um leið og við erum byrjuð.
Hugsum veturinn ekki sem eitthvað tímabil sem við verðum að komast í gengum heldur árstíð sem hefur sinn sjarma og njótum þess hvað hver árstíð hefur upp á að bjóða.
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.