Hefur þú hugsað út í það hvort þú verslar hollara í búðar- körfu eða kerru, eða skiptir það einhverju máli ?
Ég hafði ekki leitt hugann að því fyrr en ég rakst á grein sem fjallar um smá rannsókn sem var gerð með því að fylgjast með 136 manns versla í matinn og komust rannsakendur að því að þeir sem versluðu í körfu voru þrisvar sinnum líklegri til að velja óhollar vörur á meðan þeir sem versluðu í kerru völdu frekar hollar vörur.
Ástæðuna vilja rannsakendur meina að liggi í líkamlegri skynjun (e. bodily sensation) en skv. þeim hefur það áhrif á bæði hugsanir þínar og tilfinningar að halda á innkaupakörfu. Þeir vilja meina að það að spenna vöðvana til að halda á körfunni hvetur fólk til að velja vörur sem veita manni meiri augnabliksánægju eins og skyndibitamat en aftur á móti að ýta á undan sé innkaupakörfu hefur öfug áhrif og maður velur frekar hollari vörur.
Nú hef ég ekki skoðað hvernig ég versla í matinn þegar ég kaupi inn í körfu á móti því að kaupa í kerru en mig grunar að ég versli óhollari matvöru í körfu þar sem ég vel yfirleitt körfu þegar ég er á hraðferð. Þar sem það er auðveldara að halda á súkkulaðipakka en t.d. melónu þá er ekkert ólíklegt að ég velji frekar óhollari fæðu en holla. Aftur á móti kemur maður minna í körfu en kerru og þar af leiðandi er ekki hægt að troða hana út af eins miklu ruslfæði,
Einnig velti ég því fyrir mér hvort það að ég er yfirleitt á hraðferð þegar ég versla inn með körfu sé í raun stærri áhrifaþáttur en karfan sjálf, þar sem verslunarferðin er oft óskipulagðari og ég tek meiri skyndiákvarðanir þar sem ég er í tímaþröng og versla frekar á skyndihvöt en skynsemi.
Hvað heldur þú ?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.