Amy Cuddy átti ekki að verða farsæll vísindamaður. Í raun, átti hún ekki einu sinni að klára framhaldsnám.
Snemma á námsferli hennar lenti hún í alvarlegu bílslysi og fékk höfuðáverka sem breyttu lífi hennar til frambúðar. Læknar tjáðu henni að hún gæti alveg eins sleppt því að fara í skólann til að klára námið því það væri vita vonlaust.
Amy lét það ekki stöðva sig, lagði sig alla fram og hætti ekki fyrr en takmarkinu var náð. Í dag starfar hún sem prófessor hjá Harvard viðskiptaskólanum þar sem hún rannsakar hvernig óyrtar hegðanir og skyndiákvarðanir hafa áhrif á okkur sjálf og aðra í kringum okkur.
Oft er talað um ,,Mind over matter‘‘ eða að við getum stjórnað líkama okkar með huganum en Amy snýr dæminu við. Hún veltir því sem sagt fyrir sér hvort við getum mótað hugann okkar með líkamsstöðum. Hún flokkar líkamsstöðurnar sem við erum oftast í, í háar stöður og lágar stöður eða high poses og low poses. Eins og gefur kannski auga leið þá eru háu stöðurnar valdeflandi og fylla okkur af sjálfstrausti og þar af leiðandi fær nafnið power posing.
Ekki er Amy bara eldklár heldur algjör sjarmör og það eru mikil mistök ef þú lætur þetta myndband framhjá þér fara. Rannsóknirnar sem Amy er búin að framkvæma hafa látið í ljós að líkamstjáning okkar getur breytt sýn annara á okkur og jafnvel efnaskiptunum í líkamanum okkar, einfaldlega með því að breyta um líkamsstöðu. Þetta eru svo einföld vísindi og það er svo auðvelt að tileinka sér þessa einföldu aðferð að þess ber svo sannarlega að dreifa henni.
Fyrirlesturinn er ekki nema 20 mínútur og hver veit nema hann muni breyta þér til frambúðar ?
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!