Prótein gott fólk, þau eru æði. Við íslendingar borðum ríkulega af þeim og þess vegna fannst mér tilvalið að fjalla svolítið um þau á þurru og fræðilegu nótunum.
Prótein eru lífsnauðsynleg næringarefni fyrir mannslíkamann þar sem þau eru meðal annars byggingareiningar vefja, þá sérstaklega vöðva en einnig líffæra.
Prótein geta líka verið orkuuppspretta fyrir líkamann. Þau finnast ríkulega í mannslíkamanum, eru í öllum okkar frumum og eru nauðsynleg fyrir vöxt og viðhald líkamans.
Prótein brotnar niður í aminósýrur við meltingu en aminósýrur hafa það göfuga verk meðal annars að gera við skaddaða vefi og byggja upp vöðva. Fyrir utan það er það nauðsynlegt við myndun blóðkorna.
Líkaminn grípur í próteinforða sinn til orkumyndunar ef hann skortir kolvetni og fitu.
Þetta segir okkur að prótein er líkamanum sérlega mikilvægt og þá sérstaklega ef manneskja stundar líkamsrækt og leitast eftir því að byggja upp vöðva, en það er einmitt það sem við flest viljum gera þessa dagana þegar við kíkjum í ræktarsalinn.
Nóg af þurrum fróðleik og yfir í mikilvægari hluti – við vitum öll að við ættum að snæða prótein en nákvæmlega hvaða fæðutegundir innihalda mikið af próteinum?
Í 100gr af…
- Eggjum eru 12gr af próteini
- Harðfiski eru 68gr af próteini
- Laxi eru 21gr af próteini
- Ýsu eru 23gr af próteini
- Söl eru 14gr af próteini
- Lifur eru 22gr af próteini
- Lambalæri eru 20gr af próteini
- Nautakjöti eru 20gr af próteini
- Grófu hrökkbrauði eru 13gr af próteini
- Skyri eru 12gr af próteini
Verum dugleg að borða holl og góð prótein í hreinni fæðu. Þannig aukum við líkurnar á góðum árangri í ræktinni.
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.