Síðastliðinn föstudag var haldinn námsdagur fyrir fagfólk um mikilvægi tilfinningatengsla foreldra og ungbarna. Námsdagurinn fór fram á ensku og var yfirskrift dagsins
“Understanding why some mothers find it hard to love their babies”.
Fyrirlesari á námsdeginum var dr. Amanda Jones, klínískur sálfræðingur og sérfræðingur í fjölskyldumeðferð sem starfar í London. Í fyrirlestrum sínum fjallaði Amanda m.a. um hversu meðgangan og fyrstu æviárin eru mikilvægur tími fyrir þroska heila barnsins. Börn eru mjög háð þeirri ást og umönnun sem þau fá fyrstu árin og mikilvægt er að vel takist til því samskipti barna og foreldra hafa áhrif á samskiptahæfi barnanna, sjálfsmynd og tengsl þeirra við aðra seinna á ævinni.
Amanda greindi frá því að niðurstöður fjölmargra rannsókna bentu til þess að um fimmtungur mæðra ættu í sálrænum erfiðleikum í aðdraganda og kjölfar barnsburðar. Hluti þess hóps á í erfiðleikum með að mynda tilfinningatengsl við börn sín. Áhættuþættir fyrir móður eru m.a. ef þær hafa glímt við geðræna kvilla, fíknisjúkdóma, hafa átt erfiða æsku, orðið fyrir áföllum eða ofbeldi eða átt í erfiðu sambandi við foreldra sína.
Mæður sem eiga erfitt með að elska börn sín
Amanda fjallaði sérstaklega um mæður sem eiga erfitt með að þykja vænt um börnin sín. Hún sagði brýnt að tryggja þeim viðunandi aðstoð og sagði mikilvægt að fagfólk eins og ljósmæður væru vakandi fyrir vandamálinu. Það þyrfti að hlusta á mæðurnar og gefa þeim færi á að segja hvernig þeim líður því að það væri afar erfitt fyrir móður að finna ekki ástartilfinningar til barnsins síns og því gæti fylgt skömmustu- og sektartilfinning. Í starfi sínu kvaðst Amanda hafa séð áhrifamikil dæmi um viðsnúning á líðan mæðra og barna þegar þau fá skilning og viðeigandi aðstoð. Amanda gerði sjónvarpsþætti um mikilvægi þess að veita sérhæfðan stuðning fyrir þennan hóp mæðra. Þættirnir, sem nefnast Help me love my baby, voru sýndir á RÚV í april sl. og verða endurteknir nú í nóvember.
Úrræði hér á landi
Á Íslandi er meðgönguvernd og ung- og smábarnavernd í góðum farvegi, hver fjölskylda hefur sína ljósmóður og heilsugæslu til að leita til. Lögð er áhersla á mikilvægi sambands foreldranna innbyrðis og samstöðu þeirra í foreldrahlutverkinu.
Þegar upp koma erfiðleikar eru ýmsir aðrir fagaðilar sem vinna að því að bæta líðan foreldra með fræðslu og viðtölum. Stundum þarf móðirin að fá sérstaka tíma með barninu til að efla skilning hennar á þörfum barnsins og finna nauðsynlegan styrk til að gefa barni ást og umhyggju.
Sem dæmi um meðferðarúrræði má nefna Miðstöð foreldra og barna ehf, Nýja barnið á Akureyri, vökudeild og geðsvið Landspítalans sem hafa öll á að skipa teymum sem sinna fjölskyldum ungra barna. Auk þess eru ýmsir sérfræðingar í stofum.
(Þessi grein var birt á heimasíðu Landlæknisembættisins)
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.