Það getur verið erfitt að fara á æfingu, sérstaklega ef hún er eldsnemma á morgnana.
Það er svo ofsalega auðvelt að snúa sér á aðra hliðina og hugsa um hversu seint þú fórst að sofa í gær og finna fyrir svefnsveltu.
Nú eða að vakna allt of þreytt og geta ekki hugsað sér að byrja hreyfa sig strax, eða heyra í veðrinu úti sem býður ekki upp á það að setjast beint upp í bílinn -eða einfaldlega ég nenni ekki.
Þessi barátta er oftast við okkur sjálf og við viljum vinna hana.
Við erum ánægð þegar við erum komin á æfingu og eins gott að koma með rétt rök hvers vegna við erum að þessu. Púkinn á öxlinni fær ekki að ráða!!
Við vitum öll hve hreyfing er nauðsynleg fyrir heilsuna en stundum ræður annað för.
Það er gott mottó sem segir: Ég geri það sem ég þarf svo ég geti gert það sem ég vil.
Ég vil vera heilsuhraust og lifa vel. Mig langar að líða vel og vera ánægð með sjálfa mig. Ég finn hvað hreyfing og hollt mataræði lætur mér líða vel . Ég vil geta notið þess að lifa lífinu lifandi með fjölskyldu minni og jafnvel hlaupið 5 km þegar ég er níræð 👊🏼
Ég vil ekki þurfa hugsa seinna meir að ég hefði átt að hugsa betur um sjálfa mig. Svona þegar allt er komið í óefni.
Við erum oft að lenda í baráttu við okkur sjálf. Jafnvel keppnismaðurinn, þjálfarinn og fleiri sem stunda hreyfingu allt árið. Við erum öll í þessu saman að berjast við þessa hugsun sem reynir að halda aftur af okkur… EN…
Ekki gefast upp “Just do it” og við munum uppskera árangur!!!
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.