Taryn Brumfitt er Áströlsk mamma sem skrifar á síðuna sína sem heitir Body Image Movement.
Á síðunni er hægt að finna fullt af fróðleik um uppeldi en Taryn hvetur konur einnig til þess að elska líkamann sinn eftir meðgöngu og fæðingu því við erum jú ekki allar súpermódel sem pössum í gallabuxnastærð 26 strax á eftir.
Ein grein frá henni fékk mig nánast til að pissa í buxurnar (sem Taryn gerði einnig einu sinni). Í greininni segir hún frá því hvernig líkaminn hennar brást við eftir fæðingu barnanna sinna en hún gerði sér enga grein fyrir því að þvaglát og bara það að þurfa að hafa hægðir yrði svona mikið vandamál! Geirvörturnar hennar uðru einnig risastórar, á stærð við bollaundirskálar segir hún! Eftir að hún átti sitt fyrsta barn varð maginn skrýtinn, hlaupkenndur og stór og hún sagði við sjálfa sig; iss elskan þetta hverfur eftir smátíma en það hefur lítið breyst, maginn hennar myndar broskarl og er enn hlaupkenndur.
Taryn langaði að komast út og gera eitthvað skemmtilegt, gleyma aðeins stund og stað og ákvað því að skella sér í netboltalið en þegar hún var á fullu að skjóta og hoppa þá pissaði hún í buxurnar, hún stóð gersamlega miður sín á miðjum vellinum, búin að pissa í sig og vissi ekkert hvað hún ætti að gera. Þá spurðu stelpurnar í liðinu hvort hún stundaði ekki grindarbotnsæfingar en hún hafði gleymt að stunda þær en gleymir þeim ekki í dag!
Þá kemur að hægðunum, – þegar sonur hennar var sex vikna ákváðu þau hjónin kíkja í heimsókn til vina sinna. Á leiðinni heim varð Taryn brátt í brók (bókstaflega) svo mikið að hún sendi manninn sinn á undan til að opna hliðið , húsið og klósettið til þess að hún næði örugglega inn á klósett til að gera númer tvö. En Taryn náði ekki að fara inn á klósett til að klára verkið heldur stóð hún á ganginum heima hjá sér. Búin að kúka í sig!
Hún hugsaði með sjálfri sér “Jæja nú fæ ég aldrei að ríða aftur” og grét. Hún gat ekki hugsað sér að manninum sínum þætti hún sexý eða aðlaðandi eftir slíkt atvik en henni fannst þetta afar skammarlegt. Hún átti að skipta á barninu sínu sem kúkaði í sig, ekki hreinsa upp eigin skít.
Þessi grein er frábær. Taryn segir að glanstímarit geri út á það að segja konum hvernig þær eigi að vera, margar frægar konur sitji fyrir á forsíðum eftir barnsburð komnar í stærð núll og fótósjoppaðar í drasl. Hún vil stöðva þessa þróun og segir einfaldlega hingað og ekki lengra, líkami þinn er ekki eins og líkaminn minn og engin kona er eins eftir fæðingu og meðgöngu.
Það virðist enginn segja konum sem eru óléttar í fyrsta sinn hvernig raunveruleikinn er. Ég hef reyndar passað mig að segja ekki bara frá því fallega þegar vinkonur verða óléttar í fyrsta sinn. Þó að þessar elskur sem maður kemur í heiminn séu það besta í lífinu þá getur ýmislegt gerst og komið uppá á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu. Jiminn eini þá fara sko hlutirnir að gerast… ég meina af hverju er ekki talað um blóðbaðið sem stendur yfir í tæpan mánuð eftir fæðingu? Úthreinsun er “ofsalegt stuð”… já og svo mætti lengi telja.
Ég mæli með því að þú lesir þessa grein hér og fylgist með Taryn á síðunni hennar Body Image Movement.
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig