Við könnumst flest við þetta. Allt í einu ertu komin með störu og dillar fætinum án þess að það sé í takt við neina tónlist. Við komum okkur ekki að verki, af því okkur leiðst.
Nýlegar rannsóknir sýna að um leiðindafaraldur gæti verið að ræða því Hans Henrik Knoop, hjá Háskólanum við Árósa í Danmörku, komst að því að tveir þriðju af öllum fullorðnum dönum (og því ekki íslendingum?) kvartar undan því að leiðast oft og iðulega.
Hans segir að það sé svo sem ekkert að því, svo lengi sem við munum að bregðast við þessum skilaboðum því ‘leiðindatilfinningin’ er ekkert annað en líkaminn að kalla eftir hreyfingu og viðbrögðum.
“Þetta er líkaminn að biðja okkur um að nota orkuna sem í honum býr, þú átt að hlusta á þetta eins og vekjaraklukku,” segir vísindamaðurinn í viðtali við danska BT.
Um leið og við hlustum ekki á skilaboð líkamans fara slæmir hlutir að gerast. Ekki nóg með að við missum einbeitingu og komum engu í verk, leiðindin geta leitt okkur út í áfengis – og fíkniefnaneyslu, einangrun og jafnvel mjög niðurbrjótandi hugsanir sem gætu leitt til sjálfsmorðs. Þú gætir því hreinlega “drepist úr leiðindum”.
HVAÐ ER TIL RÁÐA?
Já, hvað er hægt að gera ef manni byrjar bara allt í einu að hundleiðast í vinnunni og maður finnur allt í einu fyrir miklu eirðarleysi?
Hans Henrik Knoop bendir á að það sé yfirleitt rútína í öllum störfum og að þær bjóði almennt upp á að fólki fari allt í einu að leiðast.
“En ef maður einbeitir sér virkilega að því sem maður er að gera þá losnar um leiðindin. Þú átt að einbeita þér stíft að rútínunni í stað þess að gera hana á sjálfvirkni. Hugsaðu um allt sem þú ert að gera og grannskoðaðu það,” segir hann og bætir við að einnig sé gott að hafa á hreinu hvaða hluta vinnunnar manni þyki gaman að gera. “Það eru langflestir með eitthvað svið í vinnunni sem þeir eru góðir í og hafa svolítið gaman af. Að hafa gaman af einhverju er vissulega gott vopn gegn leiðindum. Um leið og þér fer að leiðast í vinnunni skaltu reyna við þau verkefni sem þú hfeur áhuga á því það gefur þér orku og um leið ertu komin hálfa leið út úr klóm leiðindanna.
– Það er mjög mikilvægt að bregðast strax við þessari tilfinningu. Því hún er svolítið eins og vond lykt, þú finnur hana um leið og þú kemur í herbergið en eftir smá tíma verðuru samdauna og finnur hana ekki lengur.
Það sama er í gangi með að láta sér leiðast. Ef þú lætur þér leiðast þá er það merki um að þú ert ekki að þroskast, læra og vaxa… “Þetta er einfaldlega bara sóun á lífi.”
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.