Í sama hlaupi varð 60 ára íslenskur karlmaður, Sigurjón Sigurbjörnsson, í öðru sæti en hann hljóp á undir 3 tímum. Það sem vekur ekki síst athygli í þessum tveimur tilvikum er aldur þeirra og að báðir þessir einstaklingar byrjuðu seint að æfa hlaup.
Sífellt fleiri eru að stunda reglulegar æfingar hvers konar og fjölbreytileikinn eykst jafnharðan. Það fara fáir varhluta af stórauknum áhuga á hjólreiðum um borgina og Reykjavíkurmaraþon er löngu orðinn sjálfsagður hluti af Menningarhátíð Reykjavíkur.
Grunnur að göngustígum umhverfis Reykjavík var lagður 1997 og hafði hann mikil áhrif á heilsuhegðun almennings. Í dag, 22 árum seinna, er enn verið að vinna að því að stækka þá og rýmka enn frekar enda vel þjónað tilgangi sínum og gott betur. Vonandi verður lagður hjólastígur allan hringinn von bráðar.
Eldra fólk í heilsuvakningu
Eitt er víst að það er mikil heilsuvakning hér á landi og ekki síst hjá fólki sem er komið af léttasta skeiði. En þetta er í takt við það sem tíðkast annarsstaðar í heiminum.
Nýútkomin bók eftir mann að nafni Joe Friel, Fast after 50, fjallar um þetta.
Hann heldur því fram að eftir því sem við eldumst skipti heilsuhegðun okkar mun meira máli um það hvernig spilast úr genestískri forskrift okkar.
Hann er í raun að segja okkur þær góðu fréttir að við höfum mun meira með það að gera í hvaða líkamlega ástandi við erum eftir að blómaskeiðinu lýkur.
Á okkar eigin valdi
Hann gengur jafnvel svo langt að segja að 70 prósent af æfingastyrk okkar eftir 50 ára aldur sé á okkar eigin valdi. Friel vill meina að það sem veldur minnkandi styrk íþróttamanna er að hegðunin breytist frekar en að það sé “skrifað í gena-skýin”.
Þeir draga úr áreynslu og hlífa sér frekar með aldrinum sem veldur minnkandi styrk. Þannig vill Friel að eldra fólk auki frekar áreynslu og “taki vel á því” frekar en hitt.
Það er því óhætt að segja að fólk eins og Svava Rán og Sigurjón eru hvetjandi fyrirmyndir og hegðun þeirra sannarlega til eftirbreytni og samkvæmt Joe Friel ætti hún að vera það.
Verandi þjóð sem á mjög auðvelt með að hópa sig saman um tilteknar hugmyndir og hegðanir þá er heilsuæðið sem tröllríður nú öllu alls ekki versta útgáfan af íslenskri hjarðhegðun.
Guðrún Jónsdóttir er 42 ára móðir tveggja drengja. Hún lærði sálfræði og hefur starfað í mennta- og heilbrigðisgeiranum en er núna í mastersnámi í Lýðheilsuvísindum. Guðrún hefur mikinn áhuga á heilbrigði og hvað felst í því hugtaki. Hún hefur alltaf verið mikil útivistarmanneskja: Hesta, -skíða, og kayakkona. Og núna síðast hjólaáhugamanneskja en ekki síður mataráhugamanneskja því hún elskar að elda góðan mat og baka.
Mottó: Hver er sinnar gæfu smiður.