Fyrir jól var ég í farþjálfun og náði ágætis árangri hvað varðar að uppfylla markmiðin mín. Ég varð sterkari með hverjum deginum, þróttur jókst og ég fékk meiri orku.
Í janúar ákvað ég að taka mér frí frá hreyfingu, en ég hafði farið fimm sinnum í viku í ræktina í þrjá mánuði og þegar kom desember þá einhvernvegin fór að halla undan fæti hvað varðar nennu að fara í ræktina og ég tók þá einföldu ákvörðun að taka mér pásu.
En ég lofaði sjálfri mér að taka mér bara pásu í janúar og þegar mánuðurinn var að enda dreif ég mig í ræktina.
Ég var ekki lengi að átta mig á því að ég þarf greinilega á aðhaldi að halda og þegar mér bauðst að fara á námskeið í Hreyfingu var ég ekki lengi að hugsa um mig.
Fyrsti tíminn var í síðustu viku og vúsídúspí ég er komin á góðan stað.
Námskeiðið byrjaði með krafti og ég fór út úr fyrsta tímanum rauð og móð en í banastuði. Mér líst vel á hópinn, konur á öllum aldri og er meðalaldurinn 35-40 ára og má gera ráð fyrir að þátttakendurnir séu með raunsæ markmið og í leiðinni allskonar markmið.
Mín aðalmarkmið eru:
Öðlast meiri styrk, þol og liðleika.
Fá aukna orku og hvílast betur.
Uppfylla það markmið sem ég setti mér í haust að koma vel undan vetri þannig að ég verði tilbúin í Hjólað í vinnuna átakið sem hefst bráðlega og að vera tilbúin í að æfa fyrir öll götuhlaupin sem eru framundan í sumar.
Ég ætla að taka þetta námskeið alla leið og leyfa þér að fylgjast með hvaða áhrif það hefur á líðan mína!
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.