HEILSA: Fáum aðra í verkin og njótum jólanna líka

HEILSA: Fáum aðra í verkin og njótum jólanna líka

Það er morgunljóst að flest millistéttarfólk leggur allt of mikið á sig, hvort sem er í einkalífi, vinnu, tómstundum eða á heimilinu.

Það á að ná öllu, gera allt, ala upp börn, standa sig í vinnunni, líta vel út og svo framvegis. (Meira um það hér í pistli um ofurkonuna).

Svo koma JÓLIN!

Af einhverjum ástæðum hafa margir íslendingar gleymt að smella á F5 eða andlega ‘refresh’ takkann þegar kemur að jólunum.

Margir reyna enn að halda í sömu hefðir og amma og afi byrjuðu með. Þegar bara furðufuglar fóru í gegnum skilnað og staðlaði pakkinn var einfaldur: “Pabbi, mamma, börn og bíll”.

Það voru ekki til gay fjölskyldur, það var enginn með blandaða fjölskyldu. Það þurfti ekkert að mixa neitt.

SAMT á að gera allt eins og amma gerði það um jólin… þrífa allt heimilið hátt og lágt, baka smákökur, hengja upp skraut og ljós, skrifa jólakort, senda jólakveðjur, gefa í skóinn, opna dagatal, kaupa gjafir, pakka inn gjöfum, kaupa jólatré, skreyta jólatré, búa til kransa, músastiga, könglaskraut og svo mætti lengi telja.

Og af einhverjum ástæðum virðist það jú svo að konum renni meira blóð til jólaskyldunnar en körlum sem hafa það náðugt með tærnar upp í loft.

Þeirra verkefni er helst að borga fyrir matinn og keyra út pakka á Þorláksmessu. Kannski hengja upp útiljós líka en konan er á spani með of háan púls frá aðventubyrjun.

Þetta var öðruvísi hjá ömmu

Munurinn á lífstílnum hjá ömmu og afa og því sem við þekkjum í dag er þó ótrúlega mikill. Það hefur svaðalega margt breyst síðustu 50 árin eða svo. (really?)

Flestar ömmur unnu heima og sáu um börnin en afi var útivinnandi. Þetta gerði ömmu kleyft að halda svakalega fínt heimili. Það var hennar vinna sjáðu til.

Hún átti til dæmis jólagardínur og jólaútimottu og kransa af ýmsum gerðum og hún byrjaði að undirbúa jólahavaríið snemma í nóvember. Og annað… Amma drakk aldrei kók, hún fór nánast aldrei út að borða, planaði matinn fyrir hverja viku og bakaði hjónabandssælu eða pönnsur einu sinni til tvisvar í viku. Hún gekk líka heim úr matvörubúðinni með 5+ kg í hvorri hönd enda var afi á bílnum. Það var bara einn bíll. Með öðrum orðum, amma lifði spart, borðaði sjaldan sætindi og hreyfði sig dag hvern.

Enn fleiri verkefni

Eins og við flestar vitum er lífið allt, allt öðruvísi í dag. Við borðum flest aðeins of mikið, vinnum aðeins of mikið og okkur færist almennt of mikið í fang. Við erum í 100% vinnu með börn og stjúpbörn auk þess að sinna eigin áhugamálum.

Við höfum með öðrum orðum flestar of mikið að gera. Og svo koma jólin og skaffa enn fleiri verkefni.

Og af einhverjum ástæðum virðist það jú svo að konum renni meira blóð til jólaskyldunnar en körlum sem hafa það náðugt með tærnar upp í loft.

Þeirra verkefni er helst að borga fyrir matinn og keyra út pakka á Þorláksmessu. Kannski hengja upp útiljós líka en konan er á spani með of háan púls frá aðventubyrjun.

Hvað er til ráða?

Í fyrsta lagi legg ég til að þú ‘átsorsir’. Það þýðir að fá aðra í verkin.

Þó ekki sé nema í þetta eina skipti á árinu skaltu fá aðstoð heim til þín að þrífa. Taktu svo tímann sem þú græðir til að sitja á kaffihúsi, drekka kakó, rauðvín eða toddý og skrifa jólakort. Smákökudeig er hægt að kaupa t.d. í Björnsbakaríi. Nú eða í Hagkaup. Í Björnsbakaríi má líka fá stórar og flottar piparkökur til að skreyta.

En pældu samt í einu. Við borðum flestar of mikið yfir árið. Af hverju að borða enn meira þó við séum að fagna hækkandi sól og meintri fæðingu manns sem gekk undir nafninu frelsarinn? Hvað er það?

Svo eru það gjafirnar og allur maturinn. Verðum við að eyða svona miklum peningum?

Flest börn eiga of mikið af leikföngum og fatnaði. Gefum slíkt frekar til þeirra barna sem þurfa á því að halda. Okkar eigin börnum skulum við gefa t.d. föndurdót og TÍMANN okkar yfir jólin þar sem við erum afslappaðar og í góðum gír. Börn vita ekkert betra en gæðatíma með foreldrum sínum.

Ekki taka þessu öllu of alvarlega. Slakaðu á. Það þarf ekki allt að vera brakandi fullkomið. Það má vera ryk á myndarömmum. Mestu skiptir stemmningin á jólunum, slökunin, ljúfi tíminn og samveran með okkar nánustu.

Við þurfum að snúa hefðunum okkur í hag en ekki láta þær buga okkur í annríki dagsins. Jólin eru fyrst og fremst frí. Njótum þess.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest