Vissir þú að ein af hverjum átta konum fær ífarandi brjóstakrabbamein einhverntíman á lífsleiðinni og getur það gerst á hvaða lífsskeiði sem er ?
Þegar kona er á aldrinum 30-35 ára er hún oft ekki mikið að leiða hugann að því að hún geti greinst með krabbamein og þegar umræðan um sjálfskoðun brjósta kemur upp þá er ekki ólíklegt að hugsa “ég er svo ung, það er ekki fræðilegur möguleiki að ég fái brjóstakrabbamein núna”.
En alltof oft gerist það að ungar konur greinast og þegar það gerist þá er algengt að það uppgötvist með sjálfskoðun eða hreinni tilviljun.
Við undirritaðar erum þrjár konur á aldrinum 30-35 sem eigum það sameiginlegt að fyrir tilviljun fundum við ber í brjóstinu á okkur við daglegt amstur, Sigrún Þöll (35 ára) var að klæða sig og gera sig tilbúna fyrir vinnuna þegar hún tók eftir stórri kúlu á brjóstinu sínu, Kristín Erla (30 ára) var í ræktinni þegar hún rak hendina í brjóstið og fann fyrir einhverju skrítnu og Sigrún Elsa (33 ára) var í sturtu þegar hún fann fyrir hnút sem var ekki eðlilegur.
Ekki óraði okkur fyrir því að nokkrum vikum eftir að hafa fundið hnút í brjósti fengjum við greininguna að vera með þriðja gráðu ífarandi brjóstakrabbamein sérstaklega í ljósi þess að við vorum allar einkennalausar fyrir greiningu. Hjá Sigrúnu Þöll og Kristínu hafði krabbameinið dreift sér út í eitla og þurftum við allar að gangast undir aðgerðir sem leiddu til fleigskurðar eða brjóstnáms.
Allar erum við búnar að vera undanfarna mánuði í krabbameinsmeðferð með tilheyrandi lyfjameðferðum og geislameðferðum en vegna tilkomu frábærra lækna og heilbrigðisstarfsfólks á Landspítalanum sjáum við allar fram á að geta haldið áfram okkar hefðbundna lífi á næstkomandi mánuðum þrátt fyrir að hafa orðið fyrir þessu gífurlega bakslagi.
Helstu þekktu áhættuþættirnir að fá brjóstakrabbamein eru margir og er stærsti áhættuþátturinn sá að vera kona. En það eru margir áhættuþættir sem við getum haft stjórn á eins og að vera í kjörþyngd, takmarka áfengisneyslu, stunda reglulega hreyfingu, reykja ekki og að okkar mati er mikilvægast að kynnast brjóstunum sínum sem fyrst og gera sjálfskoðun.
Við viljum með þessum orðum minna konur á að skoða brjóstin sín sjálfar óháð aldri og læra strax að þreifa brjóstin til að geta borið kennsl á hvort eitthvað virðist öðruvísi en vanalega. Það getur sannarlega bjargað lífi konu að þekkja brjóstin sín.
-Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir
-Sigrún Elsa Bjarnadóttir
-Kristín Erla Þráinsdóttir
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.