Hvíldin er stór þáttur í að ná árangri og því skiptir góður svefn miklu máli.
Margir hafa lent í því að geta ekki sofið eina og eina nótt og finna þá gjarnan fyrir þreytu allan næsta dag. Aðrir hafa aftur á móti lent í þeim vítahring að ná ekki góðum og værum svefni í lengri tími. Ástæðurnar fyrir svefnleysinu eða svefntruflunum geta verið margvíslegar og hver og einn þarf að finna út hvers vegna hann getur ekki sofið.
Hafa ber í huga að svefnlyf geta verið hjálpleg við að rjúfa vítahring svefnleysis, en langvarandi notkun er oftast gagnslaus og getur verið skaðleg. Við notkun svefnlyfja er rétt að muna eftir áhrifum þeirra að deginum, þar sem sum þeirra valda þreytu og syfju, skertu jafnvægi, minnisleysi og minnka aksturshæfileika.
Hægt er að fá aðstoð hjá læknum eða þeim sem stunda óhefðbundnar lækningaaðferðir s.s. nálastungulæknum, svæðanuddurum, hómópötum eða ilmolíufræðingum.
Mörg góð og gegn ráð eru til við svefnleysi. Þeir sem eiga erfitt með svefn ættu að reyna eftirfarandi ráð í nokkurn tíma og athuga hvort þau duga ekki í baráttunni við svefndrauginn.
- Alltaf að fara að sofa á sama tíma.
- Alltaf að fara á fætur á sama tíma.
- Ekki leggja sig á daginn.
- Stunda hreyfingu – góður göngutúr fyrir svefninn getur gert gæfumuninn.
- Skrúbba á sér húðina með grófum hanska eða bursta fyrir svefninn.
- Fara í heitt bað og blanda t.d. lavender olíu út í baðið.
- Stunda slökun uppi í rúmi rétt fyrir svefninn.
- Gott er að hafa blóm í svefnherberginu – þau gefa frá sér jákvæða orku.
- Fjarlægja öll rafmagnstæki úr svefnherberginu.
- Passa upp á hitastigið – ekki hafa of heitt og ekki of kalt.
- Forðast að borða þungan mat á kvöldin.
- Forðast öll örvandi efni í a.m.k. 2 klukkustundir fyrir svefn.
- Ekki fara að sofa svangur.
- Ekki vinna klukkutíma fyrir svefn.
- Aldrei að fara að sofa í æstu hugarástandi.
Ef þetta er ekki nóg þá er auðvitað nauðsynlegt að leita sér læknisaðstoðar.
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.