Það er mikið talað um heilsu í dag: líkamsrækt, mataræði og lifnaðarhætti. En þurfum við ekki að tala um nauðsyn tannheilsunnar líka?
Tannheilsa er orðin frekar slæm hér á landi. Börn þjást út af skemmdum tönnum, margir foreldrar komnir með sýkingar og ýmis vandamál tengd sýkingunum.
Ástandið er orðið slæmt þegar fólk fer ekki til tannlæknis í 10-15 ár og börn fara í sínu fyrstu skoðun um 10 ára aldur en þetta er þekkt vandamál í dag.
Ýmsar ástæður geta verið fyrir því af hverju fólk fer ekki til tannlæknis í skoðun. Það kostar vissulega sitt og margir eiga ekki mikinn afgang hver mánaðarmót. Heilbrigðiskerfið okkar borgar ekkert niður eins og um venjulega læknisþjónustu er um að ræða nema til barna, sem fá 40% niðurgreitt.
Tannlæknafóbía er líka þekkt vandamál. Margir eru hreinlega of hræddir við að fara til tannlæknis. Það tengist oft erfiðri reynslu úr æsku. Ég man mjög vel eftir tannlækninum sem var í mínum barnaskóla. Hann var af erlendu bergi brotinn og talaði hvorki íslensku né ensku. Hann dró hiklaust tennur úr börnum án þess að deyfa almennilega áður. Svona upplifun getur haft langvarandi áhrif. Sem barn þá var þetta hrikaleg reynsla og ég svitna enn við tilhugsunina við að fara til hans.
Samkvæmt nýjustu rannsóknum eru við Íslendingar með lélegustu tannheilsuna á norðurlöndunum. Ef við tökum dæmi um 12 ára gömul börn þá eru meðalskemmdir þeirra um 2 tennur á barn. Eins með eldra fólk. Þá eru um 33% Íslendinga á aldrinum 65-75 ára ekki með sínar tennur. Þetta eru sláandi tölur!
Ég hef heyrt af fólki sem hefur þurft að fara inn á bráðamóttöku til að fá sýklalyf í æð vegna sýkinga í tönnum. Það er meira um það en við gerum okkur grein fyrir. Mörg börn líða líka fyrir lélega tannhirðu. Börn í leikskólum eru mörg hver komin með mjög skemmdar tennur og ástandið versnar með hverjum deginum.
Ef einn aðili í fjölskyldunni er með skemmdar tennur smita sýklarnir gjarnan út frá sér í tannburstaglasinu. Sýklaflóran er í partý fíling í tannburstaglasinu og dreifir sér á milli tannburstanna.
Í guðs bænum ekki bíða með það að fara til tannlæknis. Það er betra að fara annan hvern mánuð og láta skipta greiðslunni heldur en að fara ekki neitt í marga mánuði eða ár. Tannlæknar eru hið besta fólk og tilbúnir til að skipta þessu og búa til áætlun varðandi viðgerðir og kostnað.
En byrjaðu strax í dag á góðum tannbursta, tannkremi og tannþræði!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.