Eins og ég skrifaði (í þessari færslu) þá förum við Vala í einkaþjálfun og hafa okkur borist spurningar vegna þess.
Hvernig fer einkaþjálfun fram?
Einkaþjálfarinn byrjaði á að vigta, fitumæla og fara yfir líkamlega stöðu okkar Völu eftir barnsburðinn. Síðan gerði hún sérsniðið prógram samkvæmt líkamlegri getu okkar.
Æfingarprógrammið er því algerlega “okkar” og markmiðið er að sjálfsögðu að fá semi-stinnan bossa (svo væri algert æði að fá flata magann minn aftur)!
Já, ég stefni nú á six-pakkann bara enda komin í keppnisskap! Aðallega höfum við verið að vinna í að láta okkur líða vel í eigin líkama og jú, við erum mæður og eigum litla orkumikla gutta og gerum okkur grein fyrir að þeir þurfa heilbrigða mömmu sem hefur heilsu, orku og getu til að annast lítinn dreng. Svo er gaman að komast aftur í fötin sem hafa þvælst fyrir okkur á meðgöngunni í fataskápnum.
Við vorum seinar í gang en vorum hinsvegar fljótar að átta okkur á því að það er ekki kvöð að æfa heldur bara mjög skemmtilegt að hittast og ákveðin nautn að finna fyrir vöðvunum mótast á ný.
Einnig finnum við að líkaminn er farin að taka við sér. Okkur líður því enn betur andlega og líkamlega þegar við erum búnar að taka vel á. Erum alltaf jafn ánægðar eftir æfingar og enn glaðari þegar við erum með miklar harðsperrur og getum varla gengið.
Hrafnhildur einkaþjálfari hefur fylgt okkur vel eftir í gegnum allar æfingarnar, kennt okkur og leiðbeint með að gera æfingarnar rétt.
Einnig fór hún yfir mataræðið og benti okkur á hvað mátti betur fara í fæðuvali. Í sameiningu fundum við svo auðveldari og hollari leiðir til að halda áfram að njóta góðs matar en jafnframt að ná góðum árangri á sama tíma.
Við mælingu var greinilegt að kílóin eru að leka af okkur og ummálin að minnka; vöðvar byrjaðir að myndast sem okkur þykir hreint út sagt frábært!
Í lok hvers tíma eru teygjur og ef við höfum tíma þá eru góðir pottar og gufan, sem mýkir kroppinn niður og gerir húðina fallega. Á eftir erum við því vel endurnærðar og tilbúnar í átök dagsins.
Við sækjum litlu kútana okkar úr pössun en barnapössunin í Hreyfingu er til fyrirmyndar og traust starfsfólk gerir okkur kleift að stunda æfingarnar áhyggjulaust meðan litlu 7 mánaða kútarnir okkar eiga góða stund saman.
Við fáum okkur hádegisverð og núna eru það staðir með hollan mat sem verða fyrir valinu hjá okkur stelpunum; Saffran, Happ og Gló klikka aldrei.
Þennan græna heilsudrykk fékk ég í hendurnar fyrir mörgum árum frá einum einkaþjálfara stjarnanna í London..
Drykkurinn er góður ef þú ert orkulaus þá eykur drykkurinn orku, ég hef ekki fengið kvef né legið í flensu síðan ég fór að drekka hann, getur komið í stað morgun-eða hádegisverðar. Drykkurinn slær einnig á nammiþörf -en þá miðast það við að þú drekkur 1 glas á dag í allavega 2 vikur.
Græna Bomban
1 vænn hnefi ferskt spínat
1 sellerístöngull
2 græn epli (afhýdd og kjarni fjarlægður)
2 sneiðar ananas (ferskur)/ eða mangó
1/2 avocado
þunnt skornar sneiðar af ferskri engiferrót (eftir smekk)
*Allt sett í blandara og blandað vel saman, gott að setja nokkra klaka útí blönduna ef of mikið er blandað þá er gott að setja rest í frystinn, hægt er að taka með sér daginn eftir í vinnuna/ skólann.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.