Það er vitað mál að öll hreyfing skiptir máli. Íþróttafræðingar segja það, Landlæknir segir það, Lýðheilsustöðin segir það og væntanlega hlýtur það að vera rétt og satt, þetta er jú fólkið sem maður á að hlusta á.
Þess vegna finnst mér svo skrítið þegar ég segist vera í stjörnuþjálfun hjá Hreyfingu að heyra fólk fussa. Eins og öll hreyfing skipti máli, nema þegar þú ert á námskeiði!
Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að það er ekki hægt að bæta upp áratuga syndir með fjögurra vikna námskeiði, en veistu hvað fjögurra vikna námskeið getur gert fyrir þig andlega og líkamlega?
Skítt með hitaeiningarnar, einhver kíló, sentímetrana, pældu í því hvað kroppurinn hefur gott af þessu.
Mundu, öll hreyfing skiptir máli…
FJÖLBREYTNI ER MÁLIÐ
Fyrir sumum eru svona námskeið einn liður í því að vera á hreyfingu og hafa fjölbreytni í allri flórunni, svona eins og þegar maður skellir sér á námskeið í einbandaprjón, námskeið í hvernig á að prjóna tvær ermar í einu og þess háttar.
Þessi námskeið eru líka góð leið til að kynnast nýjum þáttum hreyfingar þar sem fjölbreytnin er mikil hvað varðar æfingarnar. Einnig myndast oft sambönd á svona námskeiðum og fólk finnur sér hreyfingarvin og í kjölfarið heldur áfram að hreyfa sig, af því að það er svo gaman.
En… kannski fussar fólk yfir svona námskeiðum af því að það heldur að allir séu þarna til að skera hitaeiningarnar við nös og ekki borða neitt í fjórar vikur.
Þó svo að markmiðin mín á námskeiðinu séu ekki númer 1. að létta mig, þá þýðir það ekki að mig langi til þess. Ég hef lært undanfarin ár að mér hentar best að gera eina breytingu í einu, tileinka mér hana og þegar hún kemst upp í vana, bæta við nýrri venju. Að mæta í ræktina eða hreyfa mig er breyting og hef ég tekið góðan tíma í að tileinka mér þá venju.
Ég ætla mér að missa 10kg á árinu og reiknast til að það sem ég þarf að gera til að ná þeim árangri er að hreyfa mig reglulega og borða skv. hitaeiningafjölda í kjörþyngd. Það gera 2000-2200 he. á dag, það hljómar nú alls ekki svo slæmt?
Það sem námskeiðið gerir fyrir mig er að ég verð meðvitaðari hvað ég set ofan í mig og ég vanda það sem ég læt á diskinn minn ásamt því að ég skottast í ræktina fjórum sinnum í viku. Ég bara get ekki skilið afhverju hversvegna nokkrum manni dettur í hug að sveia yfir því?
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.