Eins og við könnumst flestar við eru alltaf einhverjar tískubylgjur í gangi. Þetta gildir vissulega um mat og mataræði eins og annað.
Nýjasta bylgjan á þessu sviði, og það sem koma skal á nýju ári, er það sem kallast norrænt mataræði eða Skandinavískt mataræði.
Eftir að veitingastaðurinn Noma í Kaupmannahöfn hreppti hnossið sem besti veitingastaður í heimi hafa augu matgæðinga heimsins beinst hingað uppeftir og ekki einasta þykir matur okkar norðurhjarabúa spennandi og góður, hann á líka að vera grennandi!
Þá erum við kannski ekki að tala um íslenska þorramatinn heldur eitthvað meira í ætt við það sem tíðkast á borðum Norðmanna, Svía og Dana. Hrökkbrauð, grófkornabrauð, rótargrænmeti, villtar kryddjurtir og sveppir, kartöflukökur, síld, makríll, lax og súrar mjólkurvörur eru meðal þess sem þykir hið allra hollasta.
Þar sem umhverfi og vinnsluaðferðir eru víða óspilltari en í mörgum öðrum löndum þykir maturinn hreinni og þá er gott að nefna t.d. bláber, krækiber, rifsber og sólber.
Margar í ‘heilsuátaki’ dæsa kannski loksins því Íslendingum reynist stundum erfitt að venja sig á að borða suðræna ávexti og ógrynni af grænmeti í nafni heilsunnar. Þá er gott að geta fengið sér gróft brauð með reyktum laxi og eina ofnbakaða gulrót í hádegishressingu og allt með góðri samvisku.
Fyrir áhugasamar er gaman að lesa þessa grein sem birtist í breska blaðinu The Guardian um málið. Við spáum því þó að þú munir heyra mun meira af ‘norrænu mataræði’ árið 2012.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.