Er það í alvöru skynsamlegt, gott og gáfulegt að sturta í sig sælgæti og áfengi um helgar? Erum við að gera börnum okkar gott með ‘nammideginum’? Erum við að gera sjálfum okkur gott?
Nammidagurinn er vikulegur dagur (yfirleitt laugardagur) þar sem börnin fara á nammibarinn í Hagkaup og moka í pokana sína meðan mamma og pabbi fara í Ríkið að kaupa áfengið sitt. Sinn sykur.
Svo er haldið heim og allir steypa í sig af því svo mun líða HEIL VIKA þar til það má aftur gera vel við sig. Mamma og pabbi klára sitthvora bjórkippuna eða rauðvínsflöskuna meðan krakkarnir moka upp í sig vikuskammti af sælgæti og snakki. Sumir gera gott betur.
Ef tekið er mark á málsháttunum um að allt sé best í hófi og að hinn gullna meðalveg sé best að rata þá er þetta auðvitað algjör sturlun.
Hvað er málið?
Ég veit ekki hvaðan þessi einkennilega hefð okkar íslendinga kemur að steypa svona svakalega í okkur með reglulegu millibili.
Drykkjusiðir okkar eru jú alveg spes, þó það sama eigi kannski við um Finna og Rússa, (gott að hafa þá til fyrirmyndar, eða ekki?), sem drekka líka eins og þetta sé síðasta flaskan á jörðinni og það bara verði að tæma hana á methraða til að ná hámarksáhrifum í áfengisvímunni. Vitanlega er þetta aðeins framkvæmanlegt á föstudags og laugardagskvöldum því eftirköstin eru svo svakaleg að það þarf að minnsta kosti einn frídag (og jafnvel fleiri bjóra) til að jafna sig eftir átökin.
Hvað er eiginlega í gangi? Og svo þegar maður býður upp á eitt rauðvínsglas með pastanu á miðvikudagskvöldi þá réttir íslendingurinn fram flatan lófa og afþakkar pent. Það er jú vinna næsta dag! Þetta er auðvitað frekar skondið.
Hömlulaus óhófsþjóð
En ég byrjaði að tala um nammidagana. Ég tók eitt sinn viðtal við hámenntaðan næringarfræðing sem var nýflutt heim frá einu Norðurlandanna. Hún var slegin yfir matarvenjum Íslendinga og þá sér í lagi þessum ótrúlega furðulega “nammidegi” og “kósíkvöldunum”.
Hún hafði líka orð á því að gosdrykkjarþamb þjóðarinnar væri eitthvað séríslenskt fyrirbæri sem hún hafði hvergi séð annarsstaðar á Norðurlöndum. En við vitum hvernig það er. Það er alltaf allt í ökkla eða eyra hjá okkur. Þjóðin sem eitt sinn bjó við kveljandi höft og skort á öllu er orðin alveg hömlulaus og virðist ekki kunna sér hóf í neinu. Hvort sem er að taka lán, borða mat, drekka áfengi, vinna yfir sig eða borða nammi.
Halló? Nammi? “How exciting”.
Nammikósí meirihluta vikunnar
Geir Gunnar Markússon, ritstjóri á vef Náttúrulækningafélags Íslands tekur í sama streng:
„Við erum óhófsþjóð og tengd þessum nammidegi eru „kósíkvöld“ sem tíðkast á mörgum heimilum hér á landi frá fimmtudagskvöldi til sunnudagskvölds. Það eru fjögur af sjö kvöldum vikunnar.
Fyrir mörgum er helgin alveg að byrja á fimmtudegi og þá er byrjað að dekra við sig og sína fjölskyldu, svo á föstudegi þá er helgin komin og kósíheitin hafin í mat og drykk. Á laugardegi er „kósíkósí“ því þá er aðal nammi- og dekurdagurinn og helgin í fullum gangi. Á sunnudegi eru svo eftirköst kósíheitanna og enn verið að gera sér glaðan dag í mat og drykk með leifunum af öllum kræsingunum. Það að hafa nammidag þýðir ekki nammihelgi eða nammikósí meirihluta vikunnar. Gerum heilsu okkar og barna okkar greiða og minnkum þessi kósíheit,” skrifar Geir Gunnar. Hann er heldur ekkert að skafa af því í þessum pistli sem ég hvet þig til að lesa.
„Við Íslendingar erum að neyta um 6000 tonna af sælgæti á ári (19 kg á hvert mannsbarn) og er þetta því orðinn gríðarlega stór markaður og mikil tekjulind fyrir verslanir. Þessir nammibarir með helmingsafslætti um helgar munu halda velli og fjölga enn frekar á meðan við erum svona dugleg að kaupa nammið okkar þarna,” skrifar Geir og það með réttu.
Hvað með að prófa spilakvöld?
Ég veit að það getur verið erfitt að búa á Íslandi, og raunveruleikaflótti er eiginlega skylda þegar það kemur ekkert sumar og það lægð annanhvern dag en er þessu ekki full ofaukið hjá okkur?
Er ekki hægt að láta sér detta í hug skemmtilegri og heilsusamlegri leið til að flýja raunveruleikann en að fullorðna fólkið drekki sig yfir strikið meðan afkvæmin (og sumir foreldrar) innbyrða nammi í slíkum skömmtum að það er skaðlegt heilsunni? Þurfum við í alvöru að láta börnin okkar standa á blístri yfir amerískri froðumenningu öll laugardagskvöld, útþaninn og spennt af sykursukki?
Æi, ég held ekki. Förum vel með okkur sjálfar og börnin okkar. Lífið er of stutt til annars. Kósíkvöldið þarf ekki að einkennast af þessu sukki og það er algjör óþarfi að láta glepjast af tilboðum kaupmannanna. Nítíu prósentum kaupmanna er skítsama um okkur og það mun aldrei breytast. Þeir eru auðvitað bara að hugsa um eigin hagnað. Börnin yrðu eflaust líka mikið, mikið glaðari og þakklátari ef kósíkvöldinu yrði skipt út fyrir spilakvöld, sögukvöld eða teiknikvöld.
Fjölskyldan myndi þá bara spila, segja sögur eða teikna saman á laugardagskvöldi og það er örugglega allt í lagi að bjóða bara upp á popp og kannski pínu súkkulaði með… Þessvegna mætti semja um að allir fengju sér bara te. Allir hefðu gott af því. Af hverju ekki að prófa? Þetta svokallaða kósíkvöld má að minnsta kosti mín vegna hoppa sem lengst upp í sykraðan nammibarinn á sér. Mér finnst þetta léleg hefð.
Góðar stundir
[poll id=”73″]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.