Ég fór að spá í mjólkuróþoli þegar yngri dóttir mín var tveggja mánaða, þá búin að vera með svakalega magakrampa á hverju kvöldi frá því hún var vikugömul og grét í marga klukkutíma í senn.
Þetta var alveg hryllilegt tímabil og það þurfti eitthvað mikið að koma til. Ég ákvað að prófa að hætta að borða allar mjólkurvörur, borðaði ekki einu sinni neitt sem var með mjólkurpróteini í og það er í öllu! Maður hefði ekki trúað því en mjólkurprótein er í ótrúlegustu matvælum svo úrvalið var mjög takmarkað. En viti menn. Það dró úr magakrömpunum hjá elsku barninu eftir sirka tvær vikur, og eftir fjórar vikur var þetta nánast alveg hætt!
Mjólkuróþol – Hvað er það?
Þú hefur eflaust heyrt fólk segja að það sé með mjólkuróþol og það telur upp mjólurafurðir sem það getur ekki borðað því annars fær viðkomandi bara illt í magann. En hvað er þetta nákvæmlega og afhverju myndar fólk óþol fyrir mjólk?
Til þess að einfalda hlutina til að byrja með, þá getur manneskja sem er með mjólkuróþol ekki melt laktósa sem er sykra. Þegar laktósi fer í ristilinn ómeltur, veldur það mismiklum óþægindum hjá einstaklingi með óþol en gasmyndun, magaverkir, niðurgangur, uppköst, uppþemba og ristilkrampi eru meðal einkenna.
Hvað er laktósi? Laktósi er tvísykra sem finnst í mjólk og mjólkurafurðum. Þegar laktósi er brotinn niður er afurðin galaktósi og glúkósi.
Afhverju getur fólk með óþol ekki melt laktósa?
Niðurbrot laktósa fer fram í smáþörmunum og ensímið laktasi sér um niðurbrotið. Í einstaklingum sem eru færir um að melta laktósa er þetta ensím bara í góðum gír og sinnir sínu starfi, alveg nóg af laktasa í fullri vinnu og ekkert vesen. Hjá fólki með óþol er skortur á þessu ensími og þar af leiðandi fer laktósinn ómeltur í ristilinn, og það er sko ekki mjög næs (ég tala af reynslu).
Afhverju verður þessi skortur á laktasa?
Í mannslíkamanum eru sirka 20-25.000 gen sem kóða fyrir próteinum (ensím eru prótein). LCT er eitt af þessum mörg þúsund genum en það kóðar fyrir laktasa ensíminu. Í ungbörnum með laktósaóþol, eins og yngri dóttir mín hafði, eru stökkbreytingar í geninu valdur laktósaóþols. Þau geta hvorki melt brjóstamjólkina, þ.e.a.s ef móðirin innbyrðir laktósa, né venjulega þurrmjólk og að sjálfsögðu ekki venjulega kúamjólk. Í fullorðnu fólki er óþolið oft afleiðing skertrar starfsemi í tjáningu gensins, en það gerist hægt og rólega.
Sumir með óþol geta neytt ýmissa mjólkurvara, annað hvort bara í litlu magni eða bara einstaka tegundir. Ég t.d. get borðað ost, smjör, hreina ab mjólk (í litlu magni) og rjóma en ef ég fæ mér skyr þá enda ég yfirleitt með magakrampa og finnst eins og ég þurfi að kasta upp. Ég var því einstaklega fegin þegar fyrirtækið Arna setti á markað laktósafríar vörur! Þær eru algjör snilld og fara mjög vel í minn maga :).
Ef þú finnur fyrir óþægindum eftir neyslu mjólkurvara þá gæti verið þess virði að athuga hvort þú sért með mjólkuróþol.
Það er ekkert próf sem getur staðfest óþolið 100% en til þess að staðfesta grun er lang best að taka allar mjólkurvörur úr mataræðinu í lágmark 2-3 vikur.
Hér er stuttur listi af vörum sem má skipta út fyrir mjólk.
Passið að lesa vandlega utan á allar umbúðir 🙂
Smjör: Kæfa/avokadó/stappaður banani/hummus
Mjólk: Möndlumjólk/kókosmjólk
Jógúrt eða skyr: Avokadó
Rjómasósur: BBQ/rauðvínssósa/sósa gerð frá grunni með krafti og kryddum
Svo er hægt að gera endalaust af góðum grænmetisréttum! 🙂
Það er mjög erfitt að gera þetta en ef laktósi er að valda þér vanlíðan þá er þetta algjörlega þess virði.
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður