Það sem allir þrá er að endast og eldast vel, það er einhver dulin undirliggjandi ótti við ellina! Við eldumst misvel það veit guð og þar spilar margt inn í; genin, heilsan, ættgengi og lífsins sagan.
Það verður samt að segjast eins og er, að þegar líður á seinni helminginn í lífinu þarf að halda vel á spöðunum og vanda sig svakalega. Það er mikil og hröð breyting sem á sér stað í líkamanum.
Kollagenið er óðfluga að fjara út, ástarhöldurnar eru í útrás, allt sem við leyfum okkur spari fer beint framan á mallan, klattarnir síga svo hratt niður að maður getur ekki einu sinni læðst um haldaralaus!
Búin til fyrir hreyfingu
Það skemmtilega við þetta allt saman er að það er lausn á öllu, við getum allt sem við viljum — þarf bara pínu að breyta hugsunarhættinum og koma sér í gallan og af stað!
Segja bless við sykurinn, gosið, skyndibitann og fröllurnar, annars er millivegurinn bestur og maður er nokk fljótur að finna út hvað fer vel í kerfið. Líðanin er svo miklu betri og maður verður svo frár á fæti fyrir vikið. Við erum nefnilega búin til fyrir hollustu og hreyfingu.
Munurinn lætur ekki á sér standa
Að bæta einni æfingu, göngu og léttum teygjum við daginn er snilld og munurinn lætur ekki á sér standa.
Auðvitað þarf elju, staðfestu, setja sér markmið og vera í jafnvægi að fylgja með en fyrst og fremst að þykja gaman að þeirri hreyfingu sem maður kýs sér og vera fylgin sjálfum sér, við eigum bara einn skrokk og við eigum að dekra við hann alla daga❤️🌹
Fátt eitt er yndislegra en að leggjast upp í á kvöldin, þakka fyrir ljúfan dag vitandi að maður hafi gert sitt besta, nært líkama og sál, verið góður við náungann og að hafa munað að gefa kettinum að borða🐱🐭
Heilsan er sannkallað ríkidæmi. Að vakna glöð í sinni og takast á við verkefni dagsins er ekki sjálfgefið, verum þakklát fyrir hvern dag með fólkinu okkar, tölum við blómin, smellum kossi á gullfiskinn og verum elskuleg og góð við hvort annað….kurteisi og falleg framkoma kostar ekkert en sáir svo sannarlega fallegum fræjum.
Svo er það hitt… Við getum allar verið með stinnan bossa um sextugt! Sjáið til dæmis bara hana vinkonu okkar Wendy Ida á myndinni sem fór að æfa 47 ára. Þegar þessi mynd er tekin er daman 64 ára. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Og það má breyta öllum venjum á betri veg. Vittu til.
Dóra elskar að föndra við snittugerð en matur hefur alltaf haft mikil áhrif á hennar líf. Svo mikil að Dóra byrjar flesta morgna á að hugsa um hvað eigi að vera gott í kvöldmatinn. Hún býr á Seltjarnarnesi, á tvær æðislegar stelpur og sætasta golfara í heimi (að ólöstuðum okkar). Dóra lærði til lyfjatæknis árið 2001 en áhugamál hennar snúast um allt sem tengist mat, hreyfingu, dansi og útivist.