Ef þú ert að byrja að æfa aftur eftir langt hlé þá er líkaminn fyrstu tvær vikurnar að aðlagast þjálfuninni og ef til vill einhverjir strengir hér og þar sem þú finnur fyrir.
Við munum að hlusta vel á líkamann og gera æfingar sem henta þér best, mundu að það er alltaf hægt að gera aðrar útgáfur af æfingunni og ekki hika við að láta þjálfara vita ef einhver æfing hentar ekki.
Mikilvægt er að borða fyrir morgunæfinguna léttan mat. Sem dæmi: 2 dl létta AB mjólk með 1 msk af bran flakes og 2 tsk af hveitiklíð, 1 glas af góðum berjasafa, velja hollustusafa. Eða 1 glas af grænum hristingi eða 1 ávöxt, hrökkbrauð með gúrku og vatn með. Ef æfingin er á öðrum tímum þá er best að borða létt sirka einni og hálfri klst áður en æfingin er. Við þurfum orku á æfingunni.
Eftir æfingu er gott að láta líða sirka klukkutíma að seinni morgunmat. Sem dæmi: Hafragraut, græn bomba, eða hveitikímklatta með kotasælu.
Hádegismaturinn er yfirleitt tekin á hlaupum og þá þarf skipulagið að vera gott og fyrirfram planað svo við lendum ekki í því að taka skyndiákvarðanir sem geta lent óhollustumegin.
Ef þú ert að æfa á kvöldin er gott að fá sér eitthvað létt eftir æfinguna og láta líða ca 30-60 mín eftir æfinguna og láta það duga um kvöldið.
Millimálið þarf að vera saðsamt svo við náum að halda út með næga orku fram að kvöldmat. Gott getur verið að taka tvö millimál, þ.e. kl. 15:00 og 17:00.
Hnetur og fræ, ósaltað er gott að fá sér milli mála en þá er það skammtastærðin sem skiptir mestu þar um. Við miðum við ca 40 grömm í einu sem er ca 1 lúka en 40 gr skammtur af hnetum gefur okkur ca 220 hitaeiningar.
Kvöldmaturinn er máltíð fjölskyldunnar og við ætlum ekki að vera á sérfæði. Við getum eldað hollan kvöldmat fyrir alla. Kvöldsnarlið í algjöru lágmarki og góð regla er að borða ekkert eftir kl. 20:00.
Ég mæli með því að halda matardagbók fyrstu vikuna. Þá sjáum við hvað má betur fara.
Allar breytingar taka tíma þar til þær eru lærðar og komnar í vana. Verum þolinmóð og munum að vera dugleg að hrósa okkur fyrir góða vinnu.
Guðbjörg er iþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún hefur verið í líkamsræktarbransanum frá því árið 1989. Alltaf tilbúin að taka að sér krefjandi verkefni. Haldið ýmis þjálfaranámskeið fyrir þolfimikennara og einkaþjálfara auk þess að vera stundakennari við HR íþróttafræði. Undanfarin 19 ár hefur hún starfað með Agústu Johnson en nú hefur hún stofnað sitt eigið fyrirtæki, G fit heilsurækt og elskar að taka þátt í vellíðan fólks og upplifa árangur í líkamsrækt. Guðbjörg á skilningsríkan eiginmann og þrjú yndisleg börn.