Hvort sem þú ert kvíðin/n, átt erfitt með að koma hlutum í verk, sefur illa eða þráir meiri hamingju er hægt að nota bæði markþjálfun og hugræna atferlismeðferð til að vinna bug á þeim vanda.
Fólk sem nýtir sér þessar aðferðir til lausnar gerir það af ótal mismunandi ástæðum en hér má nefna nokkrar…
- Ná betri kjölfestu í daglegt líf
- Ná meiri árangri í starfi
- Finna meiri hamingju og gleði í daglegu lífi
- Finna leiðir út úr vandamálum og öngstrætum
- Losna við drunga minninga um margvíslegan fortíðarvanda
- Vinna bug á félagsfælni í ýmsum myndum
- Losna við kvíða og spennu sem tengist verkefnum sem þarf að leysa
- Öðlast góðan nætursvefn og læra að hvíla sig vel
Þegar ég vinn með skjólstæðinga, einstaklinga eða pör, vinn ég ýmist eingöngu með markþjálfun, eingöngu með hugræna atferlis meðferð eða að ég vinn að hluta til með markþjálfun og að hluta til með hugræna atferlismeðferð. Hvaða leið er valin fer bæði eftir óskum þess sem leitar til mín og svo eftir því hvers konar þætti er verið að vinna með. Hvað er mest áríðandi? Hvað leið er líklegust til að veita mestan árangur og vellíðan og á sem skemmstum tíma?
Leystu eigin hæfileika úr læðingi
Til að einfalda þetta mjög má segja að markþjálfun er ekki ráðgjöf heldur gagnvirk samtalsaðferð þar sem opnar spurningar eru nýttar til að aðstoða skjólstæðinginn til að finna sjálfur svörin sem hann er að leita að: Hugrænni atferlismeðferð er eins og nafnið bendir til meðferðarvinna þar sem unnið er markvisst og skipulega að því að aðstoða skjólstæðinginn við að vinna bug á ákveðnum aðstæðum sem honum /henni líður illa í (t.d. félagsfælni, kvíði, minniháttar þunglyndi eða svefnörðugleikar).
Í gegnum markþjálfun öðlast þú skýrari sýn á það sem þú vilt að verði og því sem þú vilt breyta í lífi þínu. Markþjálfinn notar ákveðna samtalstækni og virka hlutstun til að fá þig til að opna hug þinn inn á dýpri svið en annars sem verður til þess að þú nærð meiri og dýpri skilningi á eigin styrkleika, færni og getu. Ferli markþjálfunar getur auðveldað þér að sjá hvert atferli þitt getur leitt þig hvort heldur sem um er að ræða t.d. framkomu þína, samskipti við aðra, nám eða vinnu. Þannig verður auðveldara fyrir þig að leysa eigin hæfileika úr læðingi, nýta þér hæfni þína betur á hverju því sviði sem þú helst óskar, finna hver markmiða þinna skipta þig mestu máli og með hvaða hætti þú getur nálgast þau á árangursríkari hátt en annars væri.
Gætu þessar aðferðir leyst þinn vanda?
Margir vilja ennfremur vinna með ýmislegt sem hefur haft hamlandi áhrif á andlega vellíðan, gleði og hamingju. Fjöldi fólks líður á degi hverjum fyrir vanlíðan t.d. tengda félagsfælni, kvíða eða vægu þunglyndi. Aðrir eiga erfitt með að nýta krafta sína til fulls vegna þreytu, jafnvel þó þeir sofi talsvert þá ná þeir ekki að hvílast sem skyldi. Aðferðafræði hugrænnar atferlismeðferð getur nýst með afbrigðum vel varðandi alla þessa þætti – já og fleiri. Þegar það á við nýti ég því faglega aðferðafræði hugrænnar atferlismeðferðar til að aðstoða skjólstæðinga mína til að ná tökum á viðkomandi vanda.
Nú veistu aðeins meira bæði um markþjálfun og HAM – og hvernig má samtvinna þessar aðferðir – á sama tíma og þeim er haldið aðskildum. Gæti hugsast að þetta gæti hjálpað þér?
Það er lítið mál að nota t.d. Skype til að vinna saman, hvort heldur sem þú býrð úti á landi eða erlendis. Öllum er velkomið að hafa samband við mig á jona (hja) namstaekni.is.
Með hvetjandi kveðju! – Jóna Björg Sætran, M.Ed., markþjálfi, HAM
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!