Í ein tíu ár var ég það sem kallað er grænmetisæta. Ég var samt ekki 100% grænmetisæta heldur borðaði ég einfaldlega ekki kjötið af spendýrum og fyrir vikið var ég skilgreind svona af fólkinu í kringum mig.
Þetta var þrautinni þyngra á köflum. Í boðum þurfti ég reglulega að gera grein fyrir þessu vali mínu og stundum neyddist ég til að taka þátt í miklum umræðum um dýr og menn og meltingarfæri. Frekar leiðinlegt.
Það kom líka fyrir að mér var jafnvel ekki boðið í mat þar sem kjöt var á boðstólnum svo að á endanum, eða eftir rúmlega 10 ár, slakaði ég á og fór að smakka lambakjöt að nýju. Ég tók félagslegu hliðina framyfir hina.
Og ég sé ekki eftir að hafa byrjað aftur að smakka ketið en mikið finnst mér ég hafa lært margt á því að hafa verið “grænmetisæta” í meira en áratug.
Eitt af því besta var að sleppa við að kaupa og borða allar unnu kjötvörurnar sem eru í boði ásamt annari skyndifæðu. Ég borðaði mikið gróft brauð og kornmeti, egg, grænmeti og grænmetisrétti en hluta af tímanum bjó í Kaupmannahöfn þar sem nægilegt úrval var af þessháttar fæðu og margt spennandi hægt að prófa frá innflytjendum frá t.d. indlandi, pakistan og arabalöndunum. Stundum fékk ég kjúkling en sjaldan fisk enda í Danmörku.
Í dag borða ég semsagt eina tegund af spendýrakjöti, kalkún og kjúkling og á sama tíma legg ég mig meira fram um að forðast öll litar og rotvarnarefnin sem eru sett í mat.
Það getur verið flókið því það er varla neitt sem fær að vera í friði. Jú, mér skilst að fiskur og lambakjöt séu yfirleitt laus við þessi efni en flestar kjötvörur, bæði unnar og innpakkaðar, og allur pakkamatur og fyrstar máltíðir, innihalda litarefni og rotvarnarefni.
Satt best að segja eru litar -og rotvarnarefni í flestum mat og sjaldnast veit maður hvað þetta er en ég veit hinsvegar að eitthvað sem ber nöfn á borð við Tartrazine, Sodium Benzoate og Allura Red AC er væntanlega ekki að fara að þjóna hagsmunum heilsu minnar mikið. Þú ættir að prófa að lesa næst á umbúðirnar þegar þú skreppur í búðina.
Með vissu millibili koma í ljós niðurstöður rannsókna sem segja okkur að við ættum að forðast lit og rotvarnarefni í mat og þá sér í lagi að forða börnum okkar frá þessu.
E211 er eitt af þessum vondu rotvarnarefnum en nokkura ára gömul könnun frá Sheffieldháskóla bendir til þess að rotvarnarefnið skaði frumur og geti þannig flýtt fyrir öldrun og ýtt undir hrörnunarsjúkdóma eins og Parkinsons.
E211 er notað í fjölmargar tegundir gosdrykkja auk þess sem það er að finna í ýmsum matvælum.
Þessar fréttir settu aukin þrýsting á framleiðendur að leita nýrra leiða en þó má enn finna þetta efni í mörgum tegundum matar og sælgætis, þá sérlega gosdrykkja.
Einnig hefur komið fram að skýrt samhengi er á milli hegðunarvanda barna og neyslu litar -og rotvarnarefna:
Fyrir ellefu árum var birt niðurstaða rannsóknar (The Isle of Wight Study) sem sýndi samhengi á milli neyslu nokkurra algengra litarefna og ofvirkni og annarra hegðunarvandamála hjá börnum (reiðikasta, skorts á einbeitingu, ofvirkni og ofnæmisviðbragða).
Í niðurstöðum þessarar rannsóknar var m.a. ályktað að „hægt var að framkalla marktækar breytingar á hegðun barna með því að útiloka auka og litarefnin úr mataræði þeirra og öll börn nutu góðs af því en ekki einungis þau sem höfðu þegar sýnt einkenni ofvirkni eða ofnæmis.“
Efnin sem rannsökuð voru á 2-3 ára og 8-9 ára gömlum börnum eru: Tartrazine (E102), Ponceau 4R (E124), Sunset Yellow (E110), Carmoisine (E122), Quinoiline Yellow (E104), Allura Red AC (E129) og rotvarnarefnið Sodium Benzoate (E211).
Þá veit ég til þess að kvensjúkdómalæknar telja nú sumir að konur sem glíma við krónískan candida vanda fá bót meina sinna með því að taka skaðleg litarefni algjörlega úr mataræði sínu en litarefni eru í nánast öllu sem við látum í okkur fyrir utan hreint grænmeti, ávexti, lambakjöt og fisk og sumt kornmeti (best að velja þetta lífræna).
Það er mikilvægt að reyna að hafa augun opin fyrir því sem fer innfyrir varir okkar. Eins og við vitum snýst þetta sjaldnast um að þjóna hagsmunum neytandans heldur er það seljandinn sem græðir á því að hafa vöruna sem lengst í hillunni.
Ég get hinvegar reynt að passa vel upp á sjálfa mig og dóttur mína með því að hafa augun opin, lesa á miðana og vanda valið, -forðast öfga um leið og ég legg mig fram um að rata rétt í þessu.
Smelltu HÉR til að lesa meira um E efnin og hvað þetta þýðir allt.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.