Líkamsþyngdaræfingar (e. bodyweight) svokallaðar eru sérlega vanmetnar í heilsugeiranum.
Við viljum mörg hver sprikla í ræktinni og finnst kannski að líkurnar á að ná þvottabrettislúkkinu á kviðinn eða kúlurassinum vera minni en engar án fínu lóðanna og glansandi ræktartækjanna.
Þetta er hinsvegar ekki rétt. Það er ýmislegt fleira hægt að gera sem er alveg jafn áhrifaríkt, eða jafnvel áhrifaríkara. Ég er nefninlega sérlega hrifin af hvers konar líkamsþyngdaræfingum (þess má geta að pole fitness er gott dæmi um allsherjar líkamsþyngdaræfingu).
Nafnið er mjög gagnsætt eins og margt annað í íslensku tungumáli, vegna þess að í þessum æfingum er bara verið að vinna með þyngd líkamans en ekki lóð eða tæki.
Það er miklu meira en að segja það að geta lyft sínum eigin líkama í ýmsum gerðum af æfingum, það getur verið miklu erfiðara en að bögglast með lóð eða setjast í tæki.
Þegar þú hugsar um það ertu í einhverri mynd að lyfta 50 – 60 – 70 – 80 – 90 – 100 kílóum í ýmsum fettum og brettum, allt eftir því hvað þú ert þung/ur.
Fyrir vikið eru líkamsþyngdaræfingar eitthvað sem margir forðast, einmitt af því að þær eru erfiðar en það er líka eins með þær og aðrar gerðir af erfiðum hlutum sem við stöndum frammi fyrir – með æfingunni verðum við betri.
Líkamsþyngdaræfingar eru sérlega góðar af því þær nýta marga vöðvahópa í líkamanum á sama tíma og þær reyna á líkamann að hreyfa sig eðlilega, eins og við gerum dagsdaglega. Þessvegna ættu flestir að reyna að bæta líkamsþyngaræfingum inn í sitt æfingaplan, það þarf ekki að vera meira en bara að henda inn nokkrum hnébeygjum, armbeygjum, dýfum eða upphífingum.
Það besta við þær flestar er að það er hægt að gera þær hvar sem er; heima, í vinnunni, í ræktinni, úti í garði, í fríinu eða jafnvel í Kringlunni ef vilji er fyrir því (ég dæmi engan).
Vantar þig hugmyndir? Hér eru nokkrar góðar:
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=POdzasJklxw[/youtube]
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=KutF8wPlk4Q[/youtube]
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.