Í vikunni birti ég færslu um Lífsorðin 14 úr bók Héðins Unnsteinssonar, Vertu úlfur.
Lífsorðin 14 byggja á reynslu hans og vangaveltum um hvort eitthvað sammannlegt megi læra af geðhvörfum, geð”sjúkdómi” sem Héðinn hefur þurft að kljást við í langan tíma. Lífsorðin má finna aftast í bók Héðins en þar útskýrir hann hvert lífsorð fyrir sig; merkingu þess, framkvæmd og hans persónulegu tengingu við það.
Héðinn hefur unnið gott og þarft starf á sviði geðheilbrigðismála. Mig langar að benda áhugasömum á verulega flotta og vel gerða heimasíðu á hans vegum en þar er m.a. hægt að kynna sér lífsorðin nánar, lesa sér til um geðheilsu og panta fyrirlestur.
Lífsorðin 14 eru algjörlega frábær vegna þess að þau eiga erindi við okkur öll; heilbrigð sem og óheilbrigð, veik eða hraust. Ég byrjaði á því að deila mínum tveimur uppáhalds lífsorðum í vikunni, hér fylgja svo hin 12.
- Notaðu andardráttinn – “Við öndum allan sólarhringinn allt okkar líf og það skiptir máli hvernig við öndum. Það að draga andann djúpt er forsenda allrar sjálfsræktar og slökunar.”
- Borðaðu hollan mat í félagsskap annarra – “Það er mikilvægt að njóta matarins, gefa sér tíma til að borða hann. Íslendingar borða oft á tíðum of hratt, en þá missum við tilfinningu fyrir matnum og finnum ekki hvenær við erum þægilega södd.”
- Hreyfðu þig daglega – “Áhersla þarf að vera á heilsu en ekki þyngdarstjórnun. Þá er auðveldara að gera hreyfingu að hluta af lífinu.”
- Lifðu í punktinum – “Þegar við erum tengd inn á við erum við sátt við okkur sjálf, vitum hverju við getum stjórnað og hverju ekki. Við komum til dyranna eins og við erum klædd.”
- Upplifðu náttúruna – “Ef þú kemst ekki út í náttúruna eins reglulega og þú vildir, taktu hana þá heim til þín (kvikmyndir, tónlist, útsýnið úr stofunni og svo framvegis).”
- Gleymdu þér – “Við höfum ólíka þörf fyrir félagsskap, sinnum áhugamálum af mismunandi ákafa, en öll þurfum við að upplifa tengsl og nánd við annað fólk.”
- Mundu að brosa – “Það skiptir máli fyrir lífsgæði hverrar manneskju að taka sjálfa sig ekki of alvarlega.”
- Agaðu sjálfan þig – “Ytra skipulag kemur oft reglu á innri óreiðu.”
- Vertu til staðar – “Elskaðu fortíðina, hlakkaðu til framtíðarinnar en lifðu fyrst og fremst í punktinum, haltu athygli þinni vakandi.”
- Stattu með sjálfum þér – “Sjálfsvirðing er eitt af því mikilvægasta sem við lærum í lífinu.”
- Láttu þig langa í það sem þú hefur – “Því oftar sem við njótum þess einfalda, því hamingjusamari verðum við.”
- Þjónaðu í auðmýkt – “Það sem einkennir gæfusamt fólk er að trana sjálfum sér ekki fram og lifa fyrir aðra.”
- Trúðu og treystu – “Að treysta felur í sér æðruleysi og getu til þess að sleppa tökunum, að þurfa ekki að stjórna umhverfi sínu í of ríkum mæli.”
- Finndu sjálfan þig í öðrum – “Við ættum að þekkja það sem við eigum sameiginlegt með öðrum áður en við aðgreinum það sem skilur okkur frá þeim.”
Að lokum mæli ég eindregið með lestri bókarinnar, Vertu úlfur, þó ekki sé nema bara vegna Lífsorðanna 14. Margrét pjattrófa hefur nýlega lokið lestri hennar og gefur bókinni fjórar stjörnur af fimm. Hér geturðu lesið bókaumfjöllun Margrétar.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.