Mig langar að taka fyrir Lífsorðin 14 úr bók Héðins Unnsteinssonar Vertu úlfur sem kom út í vetur.
Vertu úlfur er reynslusaga Héðins af helvíti og himnaríki geðhvarfa (e. bipolar disorder).
Héðinn hefur unnið gott og þarft starf á sviði geðheilbrigðismála. Það kannast margir við geðorðin 10 en Héðinn lagði þau einmitt upp á sínum tíma.
Fyrir áhugasama er hér verulega flott og vel gerð heimasíða á vegum Héðins en þar má finna efni um geðheilsu, stefnumótun og fleira áhugavert.
Munurinn á Geðorðunum 10 og Lífsorðunum 14 er sá að Geðorðin 10 byggja á niðurstöðum rannsókna sem Héðinn einfaldlega gaf nafn og markaðssetti.
Lífsorðin 14 byggja aftur á móti á reynslu hans og vangaveltum um hvort eitthvað sammannlegt megi læra af geðhvörfum.
Lífsorðin 14 eru algjörlega frábær vegna þess að þau eiga við okkur öll; heilbrigð sem og óheilbrigð, veik eða hraust. Hér má sjá tvö þeirra sem mér finnst alveg einstaklega góð. Næstu tólf lífsorðum langar mig að deila með ykkur smátt og smátt hér á Pjattinu.
Með hverju lífsorði fylgir merking þess, framkvæmd og leið Héðins. Ég mun birta það sem helst fangar athygli mína hjá hverju lífsorði fyrir sig og mæli eindregið með að þú lesir bókina, þó ekki nema bara Lífsorðin 14 sem eru aftast í bókinni. Byrjum hér á 12 og 11.
11. Láttu þig langa í það sem þú hefur
Hvað
“Rannsóknir sýna ótvírætt að þegar fólk leggur meðvitað aukna áherslu á að vera þakklátt fyrir það sem það getur verið þakklátt fyrir, þá verður það hamingjusamara. Þetta er eitt dæmi þess hvernig sönn hamingja felst í því að einfalda líf sitt. Gott er að taka reglulega eftir því sem þú ert þakklátur fyrir og enn betra er að tjá það á einhvern hátt þó það sé bara fyrir sjálfan sig.”
Hvernig
“Haltu þakklætisdagbók. Íhugaðu þar hvað það er sem þú ert þakklátur fyrir, annað en veraldleg gæði. Tengsl dagbókar af þessu tagi við lífshamingjuna hafa margsinnis verið staðfest í rannsóknum.”
“Þakkaðu þínum nánustu reglulega fyrir þeirra liðsinni og tilvist.”
“Því oftar sem við njótum þess einfalda, því hamingjusamari verðum við.”
Leiðin mín
“Besta leiðin til að finna þakklæti í huga sér er að láta sig langa í það sem maður hefur.”
“Það sem maður “hefur” í dag kann að vera farið á morgun. Ég gekk í gegnum ferli sem tók það frá mér sem við metum mest, geðheilsuna. “Ég glataði glórunni”, en ég fann hana aftur. Það er blessun að fá að fara út fyrir ramma hinnar viðurkenndu skynjunar og túlkunar á “veruleikanum” og koma aftur.”
12. Þjónaðu í auðmýkt
Hvað
“Það sem einkennir gæfusamt fólk er að trana sjálfum sér ekki fram og lifa fyrir aðra. Leiðin að innihaldsríkri tilveru felst í því að geta starfað í auðmjúkri fullvissu um heilan innri kjarna og litla þörf fyrir viðurkenningu.”
“Það er ávísun á gæfu að krefjast ekki umbunar vegna verka sinna og ætlast ekki til neins af striti sínu. Í því felst auðmýkt og sá þroski að getað hugsað út fyrir sjálfan sig, gefið af sér og lifað fyrir aðra. Það færir okkur skrefi nær því að komast frá hinu sjálfhverfa sjálfi að hinni göfugu heild okkar.”
Hvernig
“Hvernig er hægt að starfa án strits og krefjast ekki umbunar? Sjálfsmynd okkar, sjálfstraust og sjálfsvirðing mótast jú að stórum hluta af ytri viðurkenningu. Við þurfum einungis að forðast strit og vinna verk okkar af óeigingirni. Öll okkar verk verða þá auðveldari.”
Leiðin mín
“Á þroskaleið minni hef ég velt fyrir mér sjálfhverfu mannsins og þeirri þversögn sem við stöndum frammi fyrir sem manneskjur þegar við þurfum að greina okkur frá heildinni en viljum á sama tíma tilheyra henni.”
“Við ræðum það af göfuglyndi hversu mikilvæg heildin er en þegar kemur að athöfnum okkar litast þær oftar en ekki af því sem stendur okkur næst. Það að starfa án strits og krefjast ekki umbunar var erfitt fyrir mann eins og mig sem hefur ávallt haft ríka þörf fyrir viðurkenningu.”
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.