Leggst mjólk illa í magann þinn? Færðu uppþembu og líður illa eftir einn latte? Kviðverkir og jafnvel sársauki og þreyta svo eitthvað sé nefnt?
Þá gæti þetta verið eitthvað fyrir þig.
MS voru að setja á markað nýja vöru sem er frábær valkostur fyrir þá mörgu Íslendinga sem þjást af svokölluðu ‘laktósa óþoli’ en Laktósi er mjólkursykur sem er í mjólkinni frá náttúrunnar hendi.
Mjólkursykur eða laktósa er að finna í flestum mjólkurvörum en hann er tvísykra sem samanstendur af einsykrunum glúkósa og galaktósa. Auk kúamjólkur er mjólkursykur einnig að finna í móðurmjólk og mjólk annarra spendýra.
Hvað er laktósaóþol?
Laktósaóþol er minnkuð virkni eða skortur á ákveðnu ensími sem nefnist laktasi en hann sér um niðurbrot mjólkursykursins í líkamanum. Neysla á vörum með laktósa getur því valdið fólki með laktósaóþol ýmsum kviðverkjum og öðrum óþægindum. Hafa ber þó í huga að laktósaóþol eða mjólkursykursóþol er gjörólíkt mjólkurofnæmi sem er ofnæmi fyrir mjólkurpróteinum.
Tíðni laktósaóþols
Laktósaóþol er mjög mismunandi eftir heimsálfum og í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku er meirihluti fólks sem þolir ekki laktósa.
Hér á Vesturlöndum er tíðni laktósaóþols þó mun lægra eða um 10% og á Norðurlöndunum er tíðni laktósaóþols einungis í kringum 2-5%. Erfðarannsóknir hafa sýnt að gen, sem er að finna í einstaklingum sem eiga ættir að rekja til víkinga, tengist því hve mikið af ensíminu laktasa myndast.
Er þess sérstaklega getið að á Íslandi sé hlutfall þessa gens hæst en hlutfall þess fari síðan landfræðilega minnkandi eftir því sem sunnar dregur í Evrópu. Þetta gen, eða skortur á því, er líklega helsta ástæða þess að stór hluti jarðarbúa á í vandræðum með að melta mikið magn mjólkur í einu. Flest ungabörn í heiminum eiga ekki í neinum vandræðum með að melta mjólkursykur og þrífast því vel bæði á móðurmjólk og ungbarnaþurrmjólk.
Hvernig er laktósaóþol greint?
Hægt er að greina laktósaóþol klínískt ef einstaklingur hefur haft vindverki og uppþembu eftir mjólkurneyslu. Staðfesting á að um laktósaóþol sé að ræða með því að láta einstakling neyta ákveðins magns af mjólkursykri og fylgjast með blóðsykri. Hækki hann ekki marktækt eru allar líkur á að um mjólkursykursóþol sé að ræða. Laktósaóþol er einnig hægt að greina með því að mæla vetnisgas í útöndunarlofti sem myndað er af bakteríum í þörmum við niðurbrot á ómeltum mjólkursykrinum.
Laktósafrí mjólk
Margir sem þjást af mjólkursykursóþoli hafa gert sér að góðu rísmjólk, soja eða aðrar afurðir úr jurtaríkinu en nú gefst kostur á að prófa nýja vöru: Laktósafrí mjólk er mjólk þar sem búið er að fjarlægja alveg hluta laktósans með sérstakri síutækni og kljúfa afganginn í einsykrurnar galaktósa og glúkósa sem eru auðmeltanlegar.
Laktósafrí mjólk hentar vel fólki með laktósaóþol og öðrum þeim sem finna til óþæginda í meltingarvegi við neyslu mjólkurvara. Hún er jafnframt mun lægri í kolvetnum en önnur mjólk og er einnig D-vítamínbætt en það vítamín er af skornum skammti í mat og sérstaklega mikilvægt fyrir íbúa á norðlægum slóðum sem lítið sjá af sólinni á vetrarmánuðum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.