Undanfarið hef ég verið að hlaupa sex kílómetra en næsta skref er að fara upp í tíu.
Það kemur sér vel að vera skipulögð en síðastliðin vika hefur verið ansi annasöm og ég þurfti að taka tvo daga í hvíld þar sem að hálsbólga og kvef eru að banka uppá hjá mér -ákvað að hvíla meira til þess að leggjast ekki í rúmið með hita og leiðindi.
Eftir að ég ákvað að hætta að drekka hefur aldrei verið eins mikið að gera hjá mér í félagslífinu sem er tilbreyting en ég vill meina að sumartíminn sé þannig. Það er yfirleitt meira að gera þegar sólin fer hækkandi. Viðbrögð margra hafa komið mér á óvart í sambandi við áfengisbannið. Ég hef fundið fyrir því að mörgum finnst þetta beinlínis asnalegt og eitt og eitt glas hafi sko alls engin áhrif á eitthvað hlaup sem er eftir nokkra mánuði!
Vegna þessara viðbragða er ég að berjast við djöfullinn á öxlinni sem blikkar mig áður en ég fer að skemmta mér og segir “common…eitt glas” en þrjóskupúkinn ég læt ekki segjast og berst með kjafti og klóm gegn honum og svara þeim sem gagnrýna mig fullum hálsi.
Fólk áttar sig oft ekki á því hvaða áhrif áfengi hefur á líkama í þjálfun. Í mínu tilviki er þetta ekki bara nokkra klukkustunda gaman. Dagurinn eftir er “sukkdagurinn mikli” og dagurinn eftir það er “annar í þynnku”, sum sé þrír dagar ónýtir (með drykkjudeginum). Þegar þú bætir tveimur börnum, maka og heimili í blönduna þá eru hlutirnir farnir að flækjast eilítið, ég get ekki leyft mér að liggja í leti allan daginn þar sem að ég þarf að sinna litlum einstaklingum og fjölskyldunni en helgarnar eru oftar en ekki nýttar í góðar fjölskyldustundir.
Þannig að elskurnar mínar, virðum ákvarðanir annara hverjar sem þær eru og ekki vera að setja óþarfa pressu eða stress á fólk sem er undir nógu miklu álagi fyrir.
Mataræðið er mjög mikilvægt þegar þú ert að koma þér í form og byggja líkamann upp fyrir langhlaup og púl. Morgunmaturinn er sagður vera mikilvægasta máltíð dagsins og ég held að ég verði að vera sammála því, mér fannst hann aldrei vera eitthvað merkilegur en eftir að ég fór að temja mér nýja siði og borða morgunmat innan við hálftíma eftir að ég vakna þá finnst mér dagurinn allt annar-hann byrjar í raun og veru ekki fyrr en að morgunmaturinn er kominn í mallakútinn.
Þetta er það sem ég fæ mér í morgunmat:
40 grömm lífrænt ræktað haframjöl + 10 grömm Chia fræ-þetta fær að malla í skál með heitu vatni með loki yfir sér í sirka 5 mínútur, eftir að þetta er klárt þá set ég smá fjörmjólk saman við herlegheitin.
1. Glas hreinn safi.
1. Banani.
Sportþrenna
Acidopilus (fyrir meltinguna).
Góður og saðsamur morgunmatur sem fyllir á tankinn fyrir daginn.
Framhald…
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig